Körfubolti

Fékk 720 þúsund króna sekt og bann fyrir að vera rekinn út úr húsi á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filip Petrusev missti stjórn á skapi sínu og það kostar hann skildinginn.
Filip Petrusev missti stjórn á skapi sínu og það kostar hann skildinginn. EPA/ANDREJ CUKIC

Það gæti orðið verulega dýrt fyrir leikmenn að vera reknir út úr húsi á Evrópumótinu í körfubolta.

Serbinn Filip Petrusev fékk að kynnast því en hann var rekinn út úr húsi í leik Serbíu og Portúgal í annarri umferð A-riðilsins í gær.

FIBA hefur nú dæmt hann í eins leiks bann og til að greiða fimm þúsund evru sekt sem jafngildir 720 þúsund íslenskum krónum.

Petrusev verður einnig á skilorði í eitt ár og verður því að passa sig.

Petrusev sló Portúgalann Diogo Brito í kviðinn í fyrsta leikhluta en þá voru aðeins fjórar og hálf mínúta liðinn af leiknum.

Brito talaði reyndar um það eftir leik að hann vildi ekki að dómarnir sendu Petrusev í sturtu.

Serbar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína en Petrusev missir af þriðja leiknum á móti Lettum.

Petrusev er 25 ára gamall og nýbúinn að semja við Dubai Basketball í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er lið sem fær að spila í Euroleague.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×