Skoðun

Olíu­leit á Dreka­svæði - til­vistar­leit

Halldór Reynisson skrifar

Nýlega kom fram í fréttum að orku- og umhverfisráðherra mundi ekki beita sér fyrir rannsóknum og olíuleit á Drekasvæðinu – en myndi ekki heldur beita sér fyrir banni á olíuleit á þessum slóðum. Sætir furðu að sá stjórnmálamaður sem ber ábyrgð á aðgerðum í umhverfisvernd og aðgerðaáætlun í loftslagtsmálum skuli ekki vilja ganga hreint til verks í þessu efni á tímum hamfarahlýnunar.

Að auki er merkilegt að ræða um verndun 30% af efnahagslögsögu Íslands í hafinu kringum landið, jafnvel árið 2028, ef ekki er byrjað á því að banna olíuleit, en vitað er að slík starfsemi getur skaðað lífríki sjávar.

Þá er auðvitað beint orsakasamband milli olíuleitar og aukinnar loftslagsvár. Leit að olíu hlýtur að vera rekin áfram af gróðavoninni að finna og vinna olíu. Olíuvinnsla þýðir olíunotkun en brennsla á olíu sem öðru jarðefnaeldsneyti er að mati vísindamanna helsta ástæðan fyrir hækkun hitastigs á jörðinni.

Þetta vitum við flest og þurfum ekki vitnanna við; bráðnun jökla, breyting á hafstraumum og breytt veðurfar á Íslandi sem öðrum löndum með aftakaúrkomu eða þurrkum, skógareldum og skriðuföllum segir sína sögu. Að ótöldum breytingum á lífríki í sjó og á landi.

Aldin, eldri aðgerðarsinnar gegn loftslagsvá skorar á orku-og umhverfisráðherra að senda þjóð og umheiminum skýr skilaboð í loftslagsmálum. Hamfarahlýnun af manna völdum er stærsta váin sem steðjar að mannkyni og reyndar öllu lífríki til lengri tíma. Við krefjumst þess að ráðherrann taki af öll tvímæli og beiti sér fyrir banni á olíuleit á íslenska landgrunninu.

F.h. stjórnar Aldins, eldri aðgerðasinna gegn loftslagsvá

Halldór Reynisson




Skoðun

Sjá meira


×