Handbolti

Ágúst strax kominn með titil hjá Ála­borg

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson hugsaði sig ekki tvisvar um þegar Aalborg vildi fá hann til sín.
Ágúst Elí Björgvinsson hugsaði sig ekki tvisvar um þegar Aalborg vildi fá hann til sín. Aalborg Handbold

Ágúst Elí Björgvinsson vann í dag danska ofurbikarinn með liði Álaborgar og er því strax búinn að bæta titli á ferilskrána eftir óvænta komu til dönsku meistaranna.

Álaborg fékk Ágúst til sín að láni eftir að ljóst varð að goðsögnin Niklas Landin yrði frá keppni vegna hnémeiðsla.

Hann var í leikmannahópnum gegn Skjern í ofurbikarnum í dag þegar Aalborg vann öruggan sigur, 35-29, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 17-10. Á

gúst kom þó lítið við sögu í leiknum því Fabian Norsten fékk að standa í marki Álaborgarliðsins nær allan leikinn. Miðað við tölfræðiskýrslu úr leiknum fékk Ágúst aðeins að fara inn á í einu vítakasti.

Norsten var með 30,77% markvörslu því hann varði 12 af 39 skotum sem hann fékk á sig. Þar af fóru þrjú víti í markið, rétt eins og eina vítið sem Ágúst fékk tækifæri til að verja.

Ágúst er þrítugur og þekkir vel dönsku deildina. Hann hefur spilað þar síðan 2020, fyrst með KIF Kolding og svo með Ribe-Esbjerg frá 2022. Hann fór fyrst út í atvinnumennsku árið 2018 eftir að hafa spilað áður með FH.

Thomas Arnoldsen varð markahæstur hjá Álaborg í dag með 9 mörk og Buster Juul skoraði sjö, þar af sex af vítalínunni. Hjá Skjern var Jon Lindenchrone markahæstur með átta mörk, þar af fjögur af vítalínunni, og Jakob Rasmussen skoraði jsö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×