Skoðun

#BLESSMETA – fyrsta grein

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skrifar

Ég fékk tölvupóst frá Meta þann 17. apríl síðastliðinn. Ég geri ráð fyrir að allir íslenskir notendur Facebook og Instagram hafi fengið tölvupóst sama dag. Þetta er í fyrsta skiptið í 16 ár að fyrirtækið sýnir mér athygli. Tilefnið var að tilkynna mér að öll gögn sem ég hef sett á samfélagsmiðla þess verði nýtt til að þjálfa gervigreindarlíkan fyrirtækisins. Ef ég ekki andmæli innan mánuðar eða fyrir lok maí jafngildi það samþykki mínu.

Hvað þýðir þetta? Öll samfélagsumræða, fjölskyldusögur, félagsstörf og áhugamál landsmanna eru að einhverju leyti á Facebook. Nútímamenning Íslendinga er þarna. Og alls kyns upplýsingar sem okkur er annt um og við teljum okkur eiga, en höfum afhent einkafyrirtæki á silfurfati. Nú ætlar þetta fyrirtæki að auka verðmæti sitt og styrkja yfirráð sín yfir heiminum með því að nota gögn sem við notendur höfum sjálfviljug látið af hendi.

Er ekki rétt að staldra við? Erum við viss um að við viljum þetta? Áttum við okkur á því í hverra hendur hjartað í menningu okkar er að fara? Hafa menn ekki séð mynd af forstjóra fyrirtækisins standa í návígi við stjórnarherra sem eru á hraðleið að gera Bandaríkin að einræðisríki? Ef það gerist er hætt við að hið nýja gerfigreindarlíkan verði að framlengdum armi fasismans. Þá getur hið nýja vöktunarríki talað við okkur á lýtalausri nútímaíslensku – þekkt og skilið okkar innstu drauma og þrár.

Ég hætti á Facebook 14. júlí 2018. Þann 17. apríl 2025 sagði ég upp Instagram og og sleit samskiptum við Meta. Á Twitter hætti ég 16. nóvember 2022 í kjölfar eigendaskipta.

Á heimasíðunni www.personuvernd.is eru leiðbeiningar um hvernig einstaklingar geti bannað fyrirtækinu að nýta gögn þeirra til að þróa gervigreind.

Höfundur brennur fyrir því að lýðræðið lifi af.




Skoðun

Sjá meira


×