Skoðun

Ég er deildar­stjóri í leik­skóla

Helga Guðmundsdóttir skrifar

Ég er deildarstjóri í leikskóla. Ég er með leyfisbréf kennara, en auk þess er ég með gráður í bókmenntafræði og þýðingafræði. Til samans var ég 9 ár í háskóla. Ég er leikskólakennari af því að ég uppgötvaði 31 árs gömul að það er skemmtilegasta starfið. Það reynir mikið á, bæði líkamalega og andlega, ekki síst andlega, en almennt er þetta besta starf sem ég hef unnið og ég get ekki hugsað mér annað starf eða annan vinnustað.

Ég sinni menntunar og umönnunarstarfi. Ég vinn með félagstengsl barna, skilning á umhverfinu, tilfinningar, samkennd og virðingu. Ég kenni þeim, í gegnum leik, málhljóðin, aukinn orðaforða, vísur og ýmis lög, að telja, litina og endalaust meira. Fjöltyngd börn fá aukna málörvun hjá mér. Ég skrái þroska barna og hegðun ef þörf krefur, ég vinn náið með foreldrum og ýmsum sérfræðingum ef þörf krefur. Mér þykir mjög vænt um börnin sem eru í minni umsjá, og þau sem voru hjá mér. Ef barnið þitt var hjá mér get ég lofað því að af og til kemur það upp í kollinn á mér og ég velti því fyrir mér hvar það er núna.

Ég hef skrifað bréf til barnaverndar, svarað spurningum sálfræðinga, talmeinafræðinga, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara sem dæmi. Ég aðstoða foreldra með ýmislegt og útbý efni fyrir þau sem aðstoðar þau og börnin heima við. Ég reyni að gefa af mér allan daginn og tryggja að öll börnin sem eru í minni umsjá finni fyrir öryggi og umhyggju.

Ég sinni ólíkum hlutverkum á mínum vinnustað. Ég er trúnaðarmaður, ég er leiðsagnakennari, mentor og í innra mats teymi leikskólans, ég er formaður starfsmannafélagsins. Ég fer á fundi með starfsfólki ef þess er óskað og ég sit fundi vegna þessara verkefna. Mér þykir mjög vænt um vinnustaðinn minn og fólkið þar og ég vil að allir sem þar starfa upplifi öryggi og umhyggju.

Ég er sjálfstæð móðir. Ríkið lítur ekki á það þannig lengur reyndar, sonur minn er 18 ára. En hann er enn í minni umsjá, ég sé um að hann eigi heimili, mat og hrein föt… grunnþarfirnar, og margt annað sem ég, líkt og aðrir foreldrar geri fyrir barnið mitt svo hann finni fyrir öryggi og umhyggju á sínu heimili.

Í dag er 1.nóvember. Ég fékk útborgað í morgun. Ég borgaði lán og reikninga. Ég á 87.888 kr. eftir.

Höfundur er leikskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×