Gistinætur á hótelum í maí voru 385.800, og fækkaði um7,1 prósent miðað við maí á síðasta ári. Hlutfallslega var samdrátturinn mestur á Austurlandi, og Suðurnesjum, en dróst saman í öllum landshlutum, þar af um 5,2 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Gistinóttum erlendra gesta fækkaði í heildina um 9,2 prósent, en gistinóttum Íslendinga á hótelum fjölgaði um tvö prósent. Brottfarir erlendra farþega frá íslandi í júní voru 212 þúsund á þessu ári, en 233 þúsund í fyrra.
Formaður samtaka ferðaþjónustunnar segir þetta hafa verið í uppsiglingu frá áramótum.
„Að eftirspurnin væri að gefa eftir, og inn í sumarið. Maður var auðvitað að vona að það myndi aðeins pikka upp þegar nær drægi sumri, en það hefur í raun ekki gerst,“ segir formaðurinn Pétur Óskarsson.
Staðan reyni ekki aðeins á ferðaþjónustufyrirtækin sjálf.
„Sérstaklega mun þetta reyna síðan á ríkissjóð og opinberu kerfin okkar sem treysta á tekjur af ferðaþjónustunni.“
Verðlagt upp í topp
Samkeppnishæfni Íslands spili stóran þátt í þróuninni.
„Hér er mikil verðbólga. Ísland er mjög dýrt. Það eru há laun, það eru háir skattar. Nýr skattur lagður á ferðaþjónustuna um áramótin, gistináttaskattur. Við erum komin upp í þakið hvað varðar verðlagningu.“
Ísland sé að verða undir í samkeppni við lönd á borð við Noreg og Finnland. Efla þurfi neytendamarkaðssetningu á Íslandi sem vörumerki í heild.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði ákveðið til nokkurra ára. Markaðssetning er langhlaup og miklu betra að gera það en að fara í einstaka átök þegar illa árar.“