Skoðun

Afturbatapíka í skil­greiningu HKL

Steingrímur Gunnarsson skrifar

Það þekkja eflaust margir til skilgreiningar Halldórs Kiljans á nafnorðinu afturbatapíka, en til upprifjunar fyrir þá sem ekki þekkja til er skilgreining hans á þá leið að stúlka, sem hefur látið fallerast, öðlist aftur meydóminn eftir sjö ára karlabindindi. Nútildags gengur það hraðar fyrir sig og ferskasta dæmið er þegar nýjasti fyrrverandi forsætisráðherrann okkar stígur uppúr ráðherrastól sínum og fer lóðbeint í forsetaframboð eftir að flokkur hennar hafi í tvígang fallerast með stjórnarbatteríi Sjálfstæðisflokksins, sem nú gerir flest til að koma frambjóðanda sínum á Bessastaði.

Skrýtið pólítískt bandalag það.

Það má spyrja sig hvort fólk „fatti jókinn“ og átti sig á því sem að baki býr?

Og þá kemur uppí hugann saga, sem móðurbróðir minn sagði mér úr æsku sinni. Eitt sinn voru þeir, eldri bróðir hans og hann, að skoða saman myndabók og á einni myndinni var stór og fallegur kastali í bakgrunni og fyrir framan hann stóð stæðilegur varðhundur. Þá spyr sá yngri þann eldri hvort þessi hundur sé tík. Sá eldri svarar, jú, rétt er það, en þetta væri nú ekki nein venjuleg tík, því þetta væri pólí-tík. Þó drengirnir væru ungir að árum, þá voru þeir vanir að hlusta á umræður um stjórnmál á heimilinu þar sem faðir þeirra var alþingismaður.

Nú fara í hönd forsetakosningar og jafnt í gríni sem alvöru skulum við hafa í huga skilgreininingu HKL á þessu ágæta nafnorði, sem er í titli pistilsins og horfa til annarra frambjóðenda.

Með vinsemd,

Höfundur er leiðsögumaður, Cand.mag., MA í alþjóðasamskiptum og fyrrum kjósandi VG.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×