Handbolti

„Okkur dauð­langar í meira“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals Vísir/Arnar Halldórsson

Það er ó­hætt að segja að komandi dagar séu ansi mikil­vægir fyrir karla­lið Vals í hand­bolta sem að leikur þrjá úr­slita­leiki á næstunni. Úr­slita­leiki sem gæti fjölgað nokkuð ört gangi allt að óskum hjá Óskari Bjarna Óskars­syni, þjálfara liðsins og leik­mönnum hans. Fyrsti úr­slita­leikurinn á sér stað í kvöld þar sem að Valur mætir, með bakið upp við vegg, Aftur­eldingu á heima­velli í undan­úr­slitum Olís deildarinnar.

Ekkert annað en sigur gegn Aftur­eldingu í kvöld dugir Val til þess að halda lífi í vonum þeirra um Ís­lands­meistara­titilinn. Úr­slit sem myndu bæta við enn einum úr­slita­leik fyrir liðið Undan­úr­slita­ein­vígi Vals og Aftur­eldingar stendur 2-1 fyrir Aftur­eldingu sem tryggir sér sæti í úr­slita­ein­víginu gegn FH með sigri í kvöld. Sigur sem myndi um leið henda Val út úr keppninni.

Á sama tíma á Valur fyrir höndum tvo leiki gegn Olympiacos í úr­slita­ein­vígi Evrópu­bikarsins. Fyrri leikur liðanna fer fram í N1 höllinni á laugar­daginn kemur.

„Ég held að það sé þannig með alla. Leik­menn, þjálfara og fé­lögin. Þetta er svo gaman að það vilja allir bara meira og meira,“ segir Óskar Bjarni, þjálfari Vals, um stöðuna sem liðið er í. „Það er nokkuð ljóst að ef við náum ekki að klára Aftur­eldingu í kvöld þá er Ís­lands­mótið bara búið hjá okkur. Við erum í þeirri stöðu, líkt og önnur lið í kringum okkur, að okkur dauð­langar í meira.“

Hvernig horfir þá viður­eignin í kvöld við þér?

„Mér finnst Aftur­elding hafa verið ör­lítið betri í leik eitt og þrjú á sínum heima­velli. Við vorum síðan betri á okkar heima­velli. Annars hefur þetta bara verið jafnt og skemmti­legt. Bæði lið eru með mikið af skemmti­legum leik­mönnum innan­borðs. Komið út í undan­úr­slit eru alls konar lítil at­riði sem skipta máli. Gamla tuggan með vörn, mark­vörslu og þannig lagað. Aftur­elding náði að loka á okkar styrk­leika í síðasta leik. Þá voru þeir grimmari og fastari fyrir. Við þurfum að svara því í kvöld. Það er nokkuð ljóst.“

Stuðnings­fólk Vals er dekrað með góðum árangri þessa dagana og í gær gerði karla­liðið sér í körfu­boltanum lítið fyrir og tryggði sér sæti í úr­slita­ein­vígi Subway deildar karla með sigri á Njarð­vík í odda­leik liðanna í N1 höllinni. Stemningin á leiknum var mögnuð. Eitt­hvað sem Óskar Bjarni vonar að verði einnig raunin í kvöld.

„Það ætla ég að vona. Ég veit að stuðnings­menn Aftur­eldingar munu fjöl­menna úr Mos­fells­bænum. Það er mín von að þessi skemmti­lega veisla haldi á­fram í N1 höllinni í kvöld. Þetta var náttúru­lega bara frá­bært í gær. Stór­kost­legt að fá körfuna í úr­slita­ein­vígið þriðja árið í röð. Gaman að sjá körfu­sam­fé­lagið í Val hafa vaxið svona undan­farin ár. Það gefur mér sem Val­sara mikið.

Svo er þetta bara leikur hjá okkur í kvöld. Stelpurnar spila þriðja leik sinn í úr­slitunum á morgun og körfu­bolta­ein­vígið hjá strákunum byrjar á föstu­daginn. Þá er einnig bikar­leikur hjá körlunum í fót­boltanum og við spilum fyrri úr­slita­leik okkar við Olympiacos á laugar­daginn. Þetta tekur á en eru bara for­réttindi og skemmti­legt fyrir Vals­fólk. Al­gjör Veisla.

Þegar að það er komið fram í þennan tíma. Vorið. Þá viltu vera í þessari stöðu. Við duttum út í átta liða úr­slitunum í fyrra eftir stór­kost­legan vetur. Vetur sem við vorum mjög stoltir af og tók mikið á. Núna erum við með liðið á á­gætum stað. Það er alltaf eitt­hvað smá hnjask eins og gefur að skilja, líkt og er hjá öllum liðum. Að vera í undan­úr­slitum í Ís­lands­móti og úr­slitum í Evrópu­keppni á sama tíma er náttúru­lega bara það skemmti­legasta sem við gerum. Við þurfum bara að kalla fram allt það besta í okkur. Alla orku.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×