Skoðun

Garð­bæingur á í­myndunar­bömmer í Nígeríu

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Mér finnst erfitt að ímynda mér hvar ég er stödd í lífinu ef ég kýs að vera í Abuja í Nígeríu í meira en ár, án mömmu, án sona minna, án vina minna, án peninga. Ég er með engin réttindi. Ég má ekki allskonar. Ég má ekki vinna, ég má ekki fara á námskeið í tungumálinu, ég ræð ekki hvað ég borða eða hvenær og ef ég verð lasin hjálpar mér kannski einhver. Ef ég verð mikið veik er kannski einhver sem sér það og kemur mér á sjúkrahús þar sem ég fæ lágmarks þjónustu. En bara ef ég hitti einhvern sem vill, nennir og getur hjálpað mér. Svo þarf ég að fara í gegnum 3 bæi frá svefnstaðnum mínum 3 x í viku til þess að tilkynna mig þarlendum yfirvöldum af ástæðu sem er mér ekki alveg kunn.

Ég skil ekkert hvað fólkið í kringum mig er að segja.

En ég vil frekar deyja en að fara aftur heim til Íslands.

Svona er samt staða 3 kvenna á Íslandi í dag.Og vafalaust fleiri. Það er óboðlegt.

Mér finnst líka erfitt að ímynda mér að vera í vinnunni og mitt starf er m.a að elta konu og gera allt sem í mínu valdi stendur til að þvinga hana burt. Hún berst um, hún felur sig, hún grætur. Örvæntingin er áþreifanleg og sýnileg. Og hún gerði s.s ekki neitt annað en að vera hérna. En það er mitt starf að koma henni úr landi. Ég elti hana. Ég geri allt sem ég get til að finna leið til að koma henni héðan. Og þurfi ég að beita valdi þá geri ég það. Það eru mögulega reglur einhversstaðar sem segja að ég megi þetta. Gefi mér heimild.

Þetta er jú vinnan mín.

Og ég er rugl góð í vinnunni minni.

Svona er samt staða fjölda fólks á Íslandi í dag. Rosalega margra. Og það er óboðlegt.

Mannréttindi eru réttindi okkar allra og á þeim skal aldrei gefa afslátt. Aldrei.

Höfundur er framkvæmdastjóri Pírata og Garðbæingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×