Upp­gjör og við­töl: Höttur - Valur 97-102 | Vals­menn í undan­úr­slit eftir fram­lengdan leik á Egils­stöðum

Gunnar Gunnarsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. Austurfrétt/Gunnar

Valur er kominn í undanúrslit Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir sigur á Hetti í fjórða leik liðana á Egilsstöðum í kvöld. Valur virtist með unninn leik í höndunum en heimamenn knúðu fram framlengingu með frábærum fjórða leikhluta.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur, settu niður þrjár þriggja stiga körfur í röð og komust í 0-9. Sókn þeirra gekk vel og vörnin líka þannig fljótlega var komið 14 stiga forskot, 3-17. Þá jafnaðist leikurinn ögn en Valur var 15-28 yfir eftir fyrsta leikhluta. Litlar sveiflur urðu í öðrum leikhluta og í hálfleik var Valur yfir 33-47.

Valur náði mest 21 stigs forskoti, 46-67, í þriðja leikhluta. Þar skipti leikurinn um takt, Höttur fór að sækja hraðar og bæði lið skoruðu 30 stig. Valur var áfram yfir, 63-77.

Úr leik kvöldsins.Austurfrétt/Gunnar

Höttur spyrnti hraustlega við í fjórða leikhluta og kom muninum undir tíu stig. Justas Tamulis kom Val aftur í góða forustu með tveimur þriggja stiga körfum í röð. En svo lokaðist Hattarvörnin, liðið skoraði 11 stig í röð og jafnaði í 85-85 þegar 40 sekúndur voru eftir. Valsmenn komust í 87-85 en Deontaye Buskey, sem var magnaður undir lokin, jafnaði og tryggði Hetti framlengingu.

Þar var Valur sterkari, skoraði fyrstu sex stigin. Höttur reyndi en komst ekki nær og Valsmenn voru yfirvegaðir af vítalínunni.

Atvik leiksins

Í stöðunni 80-85 og tæpar þrjár mínútur eftir hirti Buskey frákast af Kristófer Acox eftir skot Vals. Hjálmar Stefánsson kom of seint á svæðið, braut á Buskey og fékk sína fimmtu villu. Þetta frákast var einkennandi fyrir baráttu Hattar á lokamínútum og Buskey, trúlega minnsti maður vallarins, hirti sjö fráköst í kvöld.

Stjörnur og skúrkar

Það er erfitt að segja að nokkur leikmaður hafi átti alfarið góðar eða slæmar mínútur í kvöld. Justas var sjóðheitur hjá Val framan af, setti alls 7/11 þriggja stiga skotum sínum og var með 100% nýtingu úr teignum og af línunni sem skilaði honum í 32 stig. Fleiri áttu mikilvæg augnablik í liðinu.

Hjá Hetti hrökk Buskey í gang í fjórða leikhluta, skoraði, tók fráköst og keyrði upp hraðann í sókninni. Hann var lykilmaður í þessari endurkomu sóknarlega.

Stemning og umgjörð:

Aftur fylltu Austfirðingar íþróttahúsið á Egilsstöðum í úrslitakeppninni. Stundum var erfitt að keyra áfram stemminguna en áhorfendur gáfust ekki upp, frekar en liðið og - maður lifandi, lætin! – þegar munurinn inni á vellinum minnkaði.

Dómararnir

Fínir. Leyfðu mönnum að takast á eins og tilheyrir leikjum í úrslitakeppninni. Nokkur návígi sem urðu heldur harðskeytt en það þurfti ekki að vísa neinum út af vegna slíkra atvika.

Finnur Freyr: Sem betur fer náðist sigurinn

Finnur gat leyft sér að glotta aðeins út í annað í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Finni Frey Stefánssyni, þjálfara úrvalsdeildarliðs Vals í körfuknattleik, var hálflétt eftir að liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla, eftir sigur á Hetti í framlengdum leik á Egilsstöðum í kvöld. Valur henti frá sér nánast unnum leik í fjórða leikhluta.

Valur fór mun betur af stað og var lengst af um 14 stigum yfir, mest 21 stigi í þriðja leikhluta. Höttur náði hins vegar 11-0 kafla í lokin og knúði fram framlengingu. Þar reyndist Valur sterkari.

„Í úrslitakeppninni þá leggjast lið annað hvort niður eða spyrna frá sér þegar þau eru komin með bakið upp við vegg, eins og Höttur var í byrjun seinni hálfleiks. Höttur sýndu það sem það hefur sýnt í betur, að það er frábært hér á Egilsstöðum. Sem betur fer náðist sigurinn og við erum mjög glaðir með það.

Við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn og gekk vel. Það var helst í þriðja leikhluta sem við skipumst á stigum. Hann fór 30-30, sem er ekki körfubolti sem við höfum vanið okkur á. Höttur frákastaði vel undir lokin, síðan setti Obie (Trotter) tóninn með þristi, (Matej) Karlovic fór að negla þeim niður líka og (Deontaye) Buskey var frábær. Þar sáum við þetta frábæra Hattarlið sem við höfum fylgst með í vetur.

Við náðum frumkvæðinu í framlengingunni með þremur körfum. (Taiwo) Badmus stígur upp og við náum stoppum. Síðan ber lítið í milli, eitt skot eða frákast til eða frá.

Ég er himinlifandi yfir að vera kominn í gegnum þessa rimmu á móti frábæru Hattarliðið. Ég ber eintóma virðingu fyrir starfinu hér, hvernig það hefur verið byggt upp hægt og rólega. Það er vel þjálfað og sett saman og síðan var stemmingin í húsinu frábær,“ sagði Finnur Freyr.

Mismunandi menn stíga upp

Justas Tamulis var stigahæstur Valsmanna með 32 stig. Ástþór Atli Svalason reyndist drjúgur í framlengingunni þar sem hann setti niður fjögur stig.

„Við vitum hvað Justas getur og höfum beðið eftir að hann sýni sitt rétta andlit í skori. Síðan var gaman að sjá Ástþór stíga upp í framlengingunni. Þeir stigu upp núna, síðan voru aðrir sem áttu betri leik síðast. Við erum hefðbundið lið eftir meiðslin og þurfum að treysta hver á annan, sem mér fannst við gera vel á ögurstundu.“

Enginn óskamótherji

Eins og Finnur bendir á þá hefur Valur glímt við dálítið af meiðslum seinni part vetrar. Þar munar mest um Bandaríkjamanninn Joshua Jefferson, sem sleit krossband í febrúar. Antonio Monteiro hefur hins vegar skilað sínu eftir að hafa misst af fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu vegna meiðsla.

„Þetta er hörkulið og við höldum áfram með það. Það munar um að hafa fengið Antonio aftur. Við vorkennum okkur ekki yfir meiðslunum. Ég hef fulla trú á að við getum farið alla leið með þennan hóp,“ svarar Finnur Freyr, spurður um hvort hann óttist að þynnri hópur verði brothættur þegar líður á úrslitakeppnina.

Hann kveðst ekki óska sér neins liðs umfram annað í undanúrslitunum. Valur, sem deildarmeistari, mætir því liði sem var neðst í röðinni í deildinni af þeim sem komast í næstu umferð. „Þetta er skemmtilegt fyrirkomulag að vita ekki hver næsti andstæðingur er. Við getum andað aðeins rólega á morgun, við hugsum síðan vel um okkur og förum svo að undirbúa okkur þegar við vitum hver andstæðingurinn er.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira