Körfubolti

Kyrie Irving nældi sér í meira en 140 milljóna bónus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving fékk vænan bónus frá Dallas Mavericks eftir sigurinn í nótt.
Kyrie Irving fékk vænan bónus frá Dallas Mavericks eftir sigurinn í nótt. AP/Marta Lavandier

Kyrie Irving var með ákvæði í samningi sínum við Dallas Mavericks en hann skrifaði undir þriggja ára samning síðasta sumar.

Irving vissi að hann fengi eina milljón dollara í bónus, meira en 140 milljónir króna, ef hann myndi ná tveimur takmörkum.

Irving sjálfur þurfti að spila 58 af 82 leikjum liðsins og Dallas liðið þyrfti að vinna fimmtíu leiki á tímabilinu.

Því náði hann í nótt þegar Dallas vann 111-92 sigur á Miami Heat en þetta var fimmtugasti sigur liðsins á leiktíðinni.

Irving var með 25 stig, fimm þrista og fjórar stoðsendingar í leiknum. Þetta var leikur númer 58 hjá Kyrie á tímabilinu en hann er með 25,6 stig og 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í þeim.

Irving er ekkert á neinum lúsalaunum því fyrir allt tímabilið fær hann 37 milljónir dollara eða 5,2 milljarða íslenskra króna.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×