Um­fjöllun og við­töl: Kefla­vík - Fjölnir 86-58 | Meistarakandítarnir byrja af krafti

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Keflavík sallaði niður stigum í kvöld.
Keflavík sallaði niður stigum í kvöld. vísir/diego

Deildar- og bikarmeistarar Keflavíkur fóru létt með Fjölni í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar kvenna í körfubolta. 

Keflavík setti niður fyrstu stig leiksins og var þar að verki Sara Rún Hinriksdóttir sem komst á vítalínuna þegar fjórar sekúndur voru liðnar af leiknum.

Maður gat séð það á liðunum að það var smá skrekkur í þeim við upphaf leiksins. Bæði lið áttu í smá basli sóknarlega en að sama skapi gekk varnarleikurinn ágætlega upp. Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta með sjö stigum 17-10.

Annar leikhluti byrjaði keimlíkt fyrsta leikhluta þar sem stigin létu svolítið bíða eftir sér. Birna Benónýsdóttir setti fyrsta stigið í leikhlutanum þegar um tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum af vítalínunni.

Keflavík komst í hörku áhlaup og virtust ætla að stinga af þegar þær settu ellefu stig gegn tveim um miðbik leikhlutans. Það héldu eflaust margir að þarna væri leikurinn að fara frá Fjölni en allt kom fyrir ekki og Fjölniskonur sýndu gríðarlegan karakter og náðu að svara áhlaupi Keflavíkur með 10-1 áhlaupi og munurinn allt í einu bara orðin fimm stig þegar rétt um tvær mínútur voru í hálfleik, 30-25.

Keflavík sýndi þá mátt sinn og náðu að sækja tíu stig forskot fyrir hálfleik 37-27.

Seinni hálfleikurinn byrjaði fremur jafnt og mikil barátta sem einkenndi leikhlutann að mestu leyti. Keflavík reyndi að skrúfa upp hraðan en Fjölnir héldu vel í við heimakonur.

Keflavík voru heilt yfir ögn framar í þriðja leikhluta og þrátt fyrir smá pirring frá Sverri Þór á hliðarlínunni þá gerði Keflavík vel og fóru inn í síðasta leikhlutan með fjórtán stiga forskot 58-44.

Keflavík tóku öll völd í fjórða leikhluta og hlupu með leikinn. Þær náðu fljótt yfir 20 stiga forskoti sem þær létu ekki af hendi. Eftir hetjulega baráttu Fjölnis í leiknum virtust þær springa í fjórða leikhluta og fór Keflavík að endingu með 25 stiga sigur 83-58.

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík leiddu leikinn frá upphafi en sigurinn var síður en svo jafn þægilegur og hann leit út fyrir að vera. Fjölnir gerðu vel í að halda pressu á Keflavík í leiknum en virtust sprungnar í fjórða leikhluta og Keflavík hljóp þar með leikinn.

Hverjar stóðu upp úr?

Daniela Wallen var drjúg fyrir Keflavík og skilaði fimmtán stigum og reif einnig niður fimmtán fráköst. Anna Ingunn Svansdóttir og Anna Lára Vignisdóttir áttu líka flotta innkomu af bekknum og settu mikilvæg stig undir lokin.

Hjá Fjölni var Korinne Campbell stigahæst og jafnframt stigahæst á vellinum með 27 stig og tók einnig 19 fráköst. Alvöru tröllatvenna þar.

Raquel Laneiro var einnig öflug og skilaði 20 stigum og gaf tíu stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn framan af gekk ekkert sérstaklega vel hjá báðum liðum. Bæði lið voru heldur lengi í gang og klikkuðu á fullt af opnum skotum.

Hvað gerist næst?

Keflavík mætir í Grafarvoginn á laugardaginn í leik tvö.

„Ætlum að gera allt sem við getum til að reyna slá Keflavík út“

Hallgrímur Brynjólfsson á hliðarlínunni.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

„Keflavík er náttúrlega bara ógeðslega gott lið. Þær náðu smá hlaupakafla á okkur hérna í seinni hálfleik og þegar þær ná góðri mínútu í að hlaupa og þetta verður eins og borðtennis leikur þá er þetta helvíti erfitt. Ég er mjög stoltur af því hvernig við spiluðum þennan leik og það eru bara örfáir hlutir sem að við þurfum að vinna í og ég lofa bara góðri skemmtun á laugardaginn,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari Fjölnis eftir leikinn í kvöld.

Það mátti sjá smá skrekk sérstaklega sóknarlega í upphafi leiks hjá báðum liðum. Keflavík komst í gott áhlaup um miðjan annan leikhluta en Fjölnir gerði vel í að svara því áhlaupi.

„Þetta áhlaup hjá þeim var mjög flott. Það eru hörku stórir karakterar hjá okkur og sammála með að sóknin var ekki falleg hjá okkur framan af í leiknum og það er eitthvað sem að við getum bætt þvílíkt og ég tek það alfarið á mig hvernig ég stillti upp sóknarleiknum okkar.“

Fjölnir gáfu Keflavík hörku leik framan af leik en Hallgrímur vildi þó ekki meina að hann væri endilega svekktur með að ná ekki að nýta sér betur mistök Keflavíkur sóknarlega.

„Nei, Keflavík er gott varnarlið og þetta hlýtur að vera smá hrós á okkur að vera halda þeim í skefjum í þrjá leikhluta. Geggjað lið og við erum líka geggjuð og allt er frábært. Við ætlum líka bara að skemmta okkur og við ætlum að gera allt sem að við getum til þess að reyna slá Keflavík út úr þessum 8-liða úrslitum.“

Þrátt fyrir tapið í kvöld er margt jákvætt sem Fjölnir geta tekið úr þessum leik.

„Já klárlega, 25 stiga tap sem að er þannig séð of stórt að mínu mati. Við eigum marga leikmenn inni. Við urðum litlar og hræddar hérna á kafla hérna í fjórða leikhluta þar sem að við réttum þeim bara boltann trekk í trekk. Ef við náum að vera harðar af okkur, sterkar og minnkum þessar gjafir og bíðum með það fram að næstu jólum þá erum við helvíti góð.“

Hverju má búast við í leik tvö?

„Ég held að þetta verði ofboðslega keimlíkt. Ég held að Sverrir Þór muni reyna að keyra hraðann upp alveg eins og hann getur. Koma með djöfulgang og æsing og ég mun vera brjálaður á hliðarlínunni og væla í dómaranum og það mun einhver vera pirraður og einhver ánægður. Ég held að þetta verði bara geggjaður körfuboltaleikur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira