Viðskipti innlent

Auka sæta­fram­boð til Ís­lands með breið­þotum

Eiður Þór Árnason skrifar
Boeing 767 þotur Delta Air Lines munu fara daglega til New York.
Boeing 767 þotur Delta Air Lines munu fara daglega til New York. Delta Air Lines

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines hyggst auka sætaframboð í flugferðum sínum frá New York til Íslands og notar nú Boeing 767 breiðþotu á leiðinni í stað Boeing 757. Fyrsta þota flugfélagsins þetta árið kom til Keflavíkur frá New York í morgun. Þetta er þrettánda árið sem Delta flýgur milli Íslands og Bandaríkjanna.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá félaginu en í maí hefst flug Delta frá Detroit og í júní frá Minneapolis/St Paul. Flogið verður daglega til New York og Detroit og fimm sinnum í viku til Minneapolis/St Paul.

Verða alls 7.600 sæti í boði í 38 ferðum í hverri viku með vélum Delta milli Íslands og Bandaríkjanna á meðan háannatími íslenskrar ferðaþjónustu stendur yfir.

Dvelja að meðaltali í fimm til sjö daga

Að sögn Delta er meirihluti farþega í Íslandsfluginu ferðamenn frá Norður-Ameríku. Um 70% þessara ferðamanna komi með tengiflugi Delta til borganna þriggja í Bandaríkjunum til að ferðast áfram til Íslands. Dvalartími þeirra sem komi með flugfélaginu til Íslands sé að meðaltali fimm til sjö dagar.

„Ísland er einstaklega vinsæll áfangastaður meðal viðskiptavina Delta og þess vegna aukum við sætaframboðið,“ er haft eftir Matteo Curcio, yfirmanni Delta fyrir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og Indland í tilkynningu. „Delta hefur flutt rúmlega 950 þúsund farþega í fluginu til Íslands frá því við hófum starfsemina árið 2011. Okkur finnst alltaf að sumarvertíðin hjá Delta sé byrjuð með fyrstu ferð ársins frá New York til Íslands.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×