Viðskipti innlent

Fyrir­huguð lög­gjöf muni ekki laga leigu­markað í lama­sessi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigurður Orri Hafþórsson er lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu.
Sigurður Orri Hafþórsson er lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu. Stöð 2/Arnar

Lögmaður Húseigendafélagsins segir að ef nýtt frumarp innviðaráðherra nái fram að ganga muni það skerða hagsmuni leigusala verulega og leiða til þess að fleiri kjósi frekar að setja eignir sínar í skammtímaleigu til ferðamanna.

Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra til breytinga á húsleigulögum var lagt fram fyrr í mánuðinum, en umsögn Húseigendafélagsins um það var birt í gær.

Lögmaður Húseigendafélagsins segir frumvarpið munu draga úr framboði leiguhúsnæðis, verði það að lögum. Hann bendir á að leigumarkaðurinn sé borinn uppi af einstaklingum sem leigusölum.

„Ef það á að fara að herða frekar á kröfum til leigusala, til dæmis með skráningu samninga í leiguskrá og skráningu á breyttu leiguverði að viðlagrði refsiábyrgð, þá teljum við að það muni stuðla að því að leigusalar taki frekar út íbúðir sínar af almenna leigumarkaðnum,“ segir Sigurður Orri Hafþórsson, lögmaður félagsins.

Eigendur muni þá frekar kjósa kosti eins og Airbnb, eða jafnvel að selja íbúðir sínar.

„Íbúðirnar hverfa þannig af leigumarkaðnum, sem verður þá til þess að með færri íbúðum, þá auðvitað ýtist leiguverðið upp.“

Frumvarpið gangi þannig gegn markmiði sínu um aukið húsnæðisöryggi leigjenda.

„Við vitum það alveg að leigumarkaðurinn er í lamasessi en hann verður ekki lagaður með svona reglubreytingum. Það þarf fleiri íbúðir inn á markaðinn.“

Hér að neðan má nálgast umsögn Húseigendafélagsins um frumvarpið.

Tengd skjöl





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×