Um­fjöllun: Valur - Haukar 30-23 | Alls ekkert slen á Valskonum eftir bikarsigurinn

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þórey Anna Ásgeirsdóttir er með bestu leikmönnum Olís-deildar kvenna.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir er með bestu leikmönnum Olís-deildar kvenna. Vísir/Anton Brink

Valur bar sigurorð af Haukum þegar liðin áttust við í 20. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í N1-höllinni að Hliðarenda í kvöld.

Eftir að jafnræði hafði verið með liðunum fram að miðbik fyrri hálfleiks jók Valur hægt og rólega við forskot sitt en heimakonur voru 15-10 yfir í hálfleik. Valskonur héldu í horfinu í seinni hálfleik og fóru að lokum með 30-23 sigur af hólmi. 

Valur, sem hefur nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og er nýkrýndur bikarmeistari, hefur einungis beðið einn ósigur á keppnistímabilinu og Hlíðarendaliðið hefur þar af leiðandi 38 stig á toppnum.

Haukar og Fram eru hins vegar jöfn að stigum með 28 stig hvort lið í öðru til þriðja sæti deildarinnar en liðin berjast um að sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 

Ágúst Þór Jóhannsson á hliðarlínunni í leik hjá Valsliðinu. Vísir/Vilhelm

Ágúst Þór: Vörnin var lykillinn að þessum sigri

„Við settum upp flotta 5-1 vörn sem Haukar fundu ansi fá svör við og það auk markvörslunnar hjá Hafdísi skilað þessum sigri. Þetta var bara heilsteypt frammistaða á móti góðu Haukaliði og ég er mjög sáttur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, að leik loknum. 

„Stelpurnar fengu verðskuldað frí eftir bikarhelgina þar sem það hafði verið mikið álag á þeim. Við mættum ferskar til leiks og frammistaðan var til fyrirmyndar. Nú klárum við deildarkeppnina með leik að Varmá um næstu helgi og förum svo í nokkuð langa pásu þar sem við undirbúum úrslitakeppnina. 

Þar stefnum við að sjálfsögðu að landa Íslandsmeistaratitilinum en þar getur allt gerst. Við erum allavega á flottum stað með liðið eins og sakir standa,“ sagði Ágúst Þór enn fremur. 

Stefán Arnarson: Of mörg færi sem fóru forgörðum

„Það var margt fínt í þessum leik hjá okkur þrátt fyrir tapið. Við vorum að skapa mörg góð fær en við brennum af 17 skotum sem er of mikið ef þú ætlar að eiga möguleika gegn jafn sterku liði og Valsliðið er,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Hauka. 

„Við héldum áfram að reyna og það var góður andi í leikmönnum mínum þrátt fyrir erfiða stöðu. Elísa Helga átti ágætis innkomu í markið og það er margt jákvætt sem við getum tekur úr þessum leik. Við erum á góðu róli og erum á þeim stað sem við stefndum að fyrir tímabilið. 

Við erum með marga unga leikmenn sem verða reynslunni ríkari við að mæta jafn sterku og reyndu liði og Valur hefur á að skipa. Það eru spennandi tímar fram undan með úrslitakeppnina handan við hornið. Þar ætlum við að standa okkur vel,“ sagði Stefán þar að auki. 

Stefán Arnarson og Díana Guðjónsdóttir eru þjálfarar Hauka.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Valur?

Þétt vörn og góð markvarsla lagði grunninn að þessum sigri Vals sem lék einnig agaðan og skynsaman en um leið áræðinn og árangursríkan sóknarleik. Mörk Vals voru í öllum regnbogans litum og liðið nýtti vel það vopnabúr sem það býr yfir. 

Hverjar sköruðu fram úr?

Hafdís Renötudóttir varði vel á bakvið þétta vörn Valsliðsins þar sem Hildigunnur Einarsdóttir var eins og klettur þar til hún þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Elín Rósa Magnúsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir voru markahæstar hjá Val með sjö mörk hvor og Morgan Marie Þorkelsdóttir kom næst með fimm. 

Hjá Haukum var Elín Klara Þorkelsdóttir í sérflokki með sín átta mörk. Sonja Lind Sigsteinsdóttir nýtti svo færi sín vel í horninu. 

Hvað gekk illa?

Haukum gekk illa að finna glufur á þéttum varnarmúr Vals og þurftu þó nokkru sinnum að fara í örvæntingarfullar aðgerðir þar sem höndin var komin á loft hjá góðum dómurum leiksins.

Sara Odden fann ekki fjölina sína í þessum leik og var skotnýtingin hennar ekki upp á marga fiska. Hafdís var með hana í vasanum að þessu sinni.

Hvað gerist næst?

Valskonur sækja Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn í lokaumferð deildarkeppninnar á laugardaginn eftir slétta viku en á sama tíma fá Haukar hins vegar ÍR-inga í heimsókn á Ásvelli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira