Viðskipti innlent

Hlut­falls­lega flestar leigu­í­búðir á Suður­nesjum

Atli Ísleifsson skrifar
Fimmta hver íbúð á Suðurnesjum er leiguíbúð sem skráð er í leiguskrá HMS.
Fimmta hver íbúð á Suðurnesjum er leiguíbúð sem skráð er í leiguskrá HMS. Vísir/Vilhelm

Suðurnes hafa að geyma hlutfallslega fleiri leiguíbúðir í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en nokkur annar landshluti. Fimmtungur íbúða í landshlutanum er skráður í leiguskrá.

Frá þessu segir á vef HMS, en í síðustu viku var sagt frá því að um 20.500 virkir samningar hafi verið í leiguskrá á landinu um síðustu mánaðarmót. Þeim hefur svo fjölgað um hundrað síðan þá.

„Um þrír af hverjum fjórum leigusamningum í leiguskrá eru á höfuðborgarsvæðinu en rúmlega 15 þúsund samningar eru skráðir á höfuðborgarsvæðinu. Kortið hér að neðan sýnir fjölda leigusamninga eftir landshlutum þar sem næstflestu skráðu samningarnir eru á Suðurnesjum eða 2.400 talsins. Á Norðausturlandi eru tæplega 1.000 samningar skráðir.

HMS

Fjöldi samninga í leiguskrá samsvarar um 13% af heildarfjölda íbúðarhúsnæðis í landinu, en hlutfall íbúða í hverjum landshluta sem eru í leiguskrá er undir því hlutfalli í öllum landshlutum að Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu frátöldu. Fimmta hver íbúð á Suðurnesjum er leiguíbúð sem skráð er í leiguskrá HMS. Á höfuðborgarsvæðinu eru rúm 15% allra íbúða skráðar í leiguskrá. Lægst er hlutfallið á Norðvesturlandi og Vestfjörðum. Hlutfallið í öðrum landshlutum er á bilinu 5-8%.

HMS

Líkt og HMS hefur áður greint frá bendir nýjasta lífskjarakönnun Hagstofu til þess að heimili á leigumarkaði hér á landi séu um 34 þúsund talsins, eða um 21% af öllu íbúðarhúsnæði á landinu. Náist markmið HMS um að leiguskrá spanni 80% af leigumarkaði munu um 17% alls íbúðarhúsnæðis vera í leiguskránni.

Með breytingum á lögum sem tóku gildi í byrjun síðasta árs var HMS falið að hafa eftirlit með leigumarkaðnum en enginn hafði það hlutverk áður með höndum. Síðan þá hefur verið gert átak til að fá leigufélög til að skrá útleigueignir sínar og nú þegar er að finna 23 þúsund samninga í skránni, þar af um 20 þúsund virka samninga. Hlutfallslega lítið er þó af leigusamningum í nýrri leiguskrá þar sem leigusalar eru einstaklingar, þar sem þeir eru ekki skráningarskyldir samkvæmt lögum um húsnæðismál“ segir á vef HMS.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×