Viðskipti innlent

Spá 25 punkta lækkun stýri­vaxta

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Bjarki Bentsson er aðahagfræðingur Íslandsbanka. Greining bankans telur að stýrivextir gætu verið komnir niður fyrir átta prósent um næstu áramót og undir sex prósent að tveimur árum liðnum.
Jón Bjarki Bentsson er aðahagfræðingur Íslandsbanka. Greining bankans telur að stýrivextir gætu verið komnir niður fyrir átta prósent um næstu áramót og undir sex prósent að tveimur árum liðnum. Vísir/Vilhelm

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig þegar næsta vaxtaákvörðun verður kynnt á miðvikudaginn í næstu viku. Nokkrar líkur séu einnig á að vöxtum verði haldið óbreyttum fram í maí.

Þetta kemur fram á vef Íslandsbanka, en stýrivextir eru nú 9,25 prósent og hefur bankinn haldið þeim óbreyttum síðustu þrjá vaxtaákvörðunardaga.

Fram kemur á vef Íslandsbanka að fari svo að vextir verði lækkaðir nú muni hagfelld niðurstaða kjarasamninga, minni verðbólguþrýstingur og merki um kólnandi hagkerfi vega þyngra en háar verðbólguvæntingar og öfugt ef niðurstaðan verðióbreyttir vextir.

„Stýrivextir gætu verið komnir niður fyrir 8% um næstu áramót og undir 6% að tveimur árum liðnum.

Við spáum því að langþráð vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefjist á næsta vaxtaákvörðunardegi, 20. mars næstkomandi. Gerum við ráð fyrir því að vextir verði lækkaðir um 0,25 prósentur og meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verði 9,0%. Nokkrar líkur eru þó á því að peningastefnunefnd bankans ákveði að bíða átekta fram í maí, halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni og sjá hvað næstu mánuðir bera í skauti sér hvað verðbólguþróun, lyktir þeirra kjarasamninga sem enn er ólokið og áframhaldandi kólnun hagkerfisins varðar. Gætu skoðanir innan nefndarinnar orðið skiptar hvað þetta varðar líkt og raunin var í febrúar.

Okkar skoðun er hins vegar að ekki sé eftir neinu að bíða með lækkun vaxta eftir fremur hagfellda niðurstöðu kjarasamninga á stórum hluta hins almenna vinnumarkaðar, hjöðnun verðbólgu á flesta ef ekki alla kvarða síðustu mánuði og sífellt skýrari vísbendingar um kólnandi hagkerfi eftir stutt en snarpt þensluskeið,“ segir á vef Íslandsbanka.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×