Um­fjöllun: Kefla­vík - Grinda­vík 74-87 | Miklar sveiflur en Grinda­vík með níu í röð

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Ólafur Ólafsson og félagar í Grindavík eru á miklu flugi.
Ólafur Ólafsson og félagar í Grindavík eru á miklu flugi. vísir/diego

Grindavík vann sinn níunda sigur í röð í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, nokkuð sannfærandi gegn Keflavík, 87-74. 

Grindvíkingar komust þar með upp að hlið Njarðvíkur í 2.-3. sæti með 26 stig en Keflavík er með 24 stig. Valur er þó á toppnum með 32 stig.

Það voru heimamenn í Keflavík sem settu niður fyrsta stig leiksins af vítalínunni og var þar að verki Remy Martin. Það voru hinsvegar gestirnir í Grindavík sem áttu svo eftir að setja tóninn fyrir hvað koma skyldi og setti Daniel Mortensen niður þrist strax í næstu sókn.

Grindavík byrjaði að byggja upp gott forskot snemma og frábær stuðningur úr stúkunni gaf þeim mikla orku. Gestirnir virtust eiga svör við öllu sem Keflavík reyndi og á sama tíma átti Keflavík fá svör við því sem Grindavík var að gera.

Grindvíkingar voru sannfærandi og sanngjarnt yfir eftir fyrsta leikhluta 11-32.

Heimamenn byrjuðu annan leikhluta af krafti og setti Remy Martin niður opin þrist til að keyra leikhlutann í gang og fylgdu Keflvíkingar því vel eftir og náðu að loka á gestina um stund og aðeins höggva í forskotið.

Grindvíkingar voru kannski seinir í gang en þegar fyrsta karfan kom fylgdu næstu þrjár á eftir og gestirnir búnir að sækja gott forskot strax aftur.

Keflavík fékk tækifærin til að koma sér inn í leikinn en reyndu oft erfið skot sem voru ekki að detta. Grindavík leiddu eftir fyrri hálfleikinn nokkuð sanngjarnt þó svo að Keflavík hafi endað leikhlutann sterkt þá var staðan í hálfleik 32-48.

Náðu forskotinu niður í fimm

Keflavík mætti af miklum krafti út í seinni hálfleikinn og ljóst að hálfleikurinn var vel nýttur til að skerpa á hlutunum hjá heimamönnum.

Það var mikil stemning með heimamönnum sem náðu að saxa vel á forskot gestana og náðu að rífa upp stemninguna í stúkunni með sér. Keflavík náði að minnka forskotið niður í fimm stig áður en Grindavík náði vopnum sínum aftur og náðu að stöðva áhlaup heimamanna.

Grindavík náði aftur að byggja upp forskot á heimamenn og leiddu eftir þriðja leikhluta með tólf stigum, 52-64.

Eins og við var að búast var mikil barátta sem einkenndi síðasta leikhlutann. Grindavík náði að auka við forskotið en Keflavík var aldrei langt undan.

Heimamenn náðu að minnka forskotið örlítið en Grindavík náðu þó að halda Keflavík í hæfilegri fjarlægð. Keflavík reyndu að komast nær Grindavík en gestirnir stóðu vörnina vel og höfðu að endingu góðan þrettán stiga sigur á erfiðum útivelli 74-87.

Af hverju vann Grindavík?

Grindavík lagði grunninn að öflugum sigri strax í fyrsta leikhluta. Keflavík kom með frábært áhlaup í upphafi seinni hálfleiks en Grindavík héldu haus og náðu að sigla sigrinum heim.

Hverjir stóðu upp úr?

Dedrick Basile átti stórar körfur í leiknum og var öflugur í liði gestana. Endaði stigahæstur á vellinum með 23 stig og bætti við tíu stoðsendingum að auki. Daniel Mortensen og Deandre Kane voru þá einnig flottir í liði gestana.

Hvað gekk illa? 

Keflavík reyndu mikið af erfiðum skotum sem voru ekki að detta. Í nokkur skipti létu þeir vaða í þrist í stað þess að keyra á körfuna. Remy Martin átti nokkur ótímabær skot utan af velli sem reyndist dýrt þegar uppi var staðið. 

Hvað gerist næst?

Keflavík mætir aftur strax á mánudaginn og fær þá Hött í heimsókn í leik sem var frestað vegna hitavatnsleysis suður með sjó í febrúar. Grindavík býður Val velkomna í Smárann næsta föstudag.

Pétur: Ætluðum að skora hundrað stig

„Við bara skoruðum ekki nóg. Við vorum að stefna að því að skora 100 stig en það vantaði 26 stig upp á það,“ sagði svekktur Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur eftir leik aðspurður um sína sýn á leiknum.

„Við byrjum frekar flatt. Ég held að það sé kannski svolítið málið og það fer lítið ofan í hjá okkur og missum mikið af sniðskotum og opnum þriggja stiga skotum og þar fer þetta. Við erum að halda þeim í 87 og þeir voru að spila mjög vel.“

Grindavík skoraði 32 stig í fyrsta leikhluta en Pétri fannst þó sárast að sjá hvernig leikurinn endaði frekar en að einblína á fyrsta leikhlutann.

„Nei, frekar bara hvernig leikurinn endaði. Það er það sem svíður mest. Þeir náðu bara ákveðinni forystu sem að við áttum erfitt með að ná.“

„Þetta er eitthvað mjög dularfullt“

Keflavík náði frábæru áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks en Pétur sagðist þó ekki hafa verið með neina töfra orð inni í klefa í hálfleik.

„Ég hef greinilega ekki sagt nógu mikið og við fengum ekki alveg nógu mikla trú. Þetta er bara körfubolti og þetta eru fullorðnir menn. Ég er ekkert með nein töfra orð til þess að segja þeim inni í klefa og það þarf bara að berjast.“

Keflavík fær ekki langan tíma til þess að sleikja sárin því þeir mæta Hetti strax eftir helgi í frestuðum leik og spila því þrjá leiki á sjö dögum strax eftir landsleikjapásu.

„Þetta er bara topp þvæla. Deildirnar í Evrópu byrjuðu fyrir viku síðan og það hefði alveg verið hægt að setja þennan leik á miklu fyrr. Þetta er eitthvað mjög dularfullt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira