Handbolti

Gísli tryggði sigurinn er Evrópu­meistararnir höfðu betur í toppslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að marki Barcelona í leik kvöldsins.
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að marki Barcelona í leik kvöldsins. Ronny Hartmann/picture alliance via Getty Images

Evrópumeistarar Magdeburg unnu dramatískan eins marks sigur er liðið tók á móti Barcelona í toppslag B-riðils Meistaradeildar Evrópu í kvöld, 29-28.

Barcelona og Magdeburg sátu í 1. og 2. sæti riðilsins fyrir leik kvöldsins og með sigri gátu Börsungar tryggt sér beint sæti í átta liða úrslit keppninnar. Magdeburg gat hins vegar jafnað Barcelona að stigum með sigri, en efstu tvö sætin gefa sæti í átta liða úrslitum á meðan liðin sem enda í 3.-6. sæti fara í umspil.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að hafa forystuna, en það voru gestirnir frá Barelona sem leiddu með einu marki í hálfleik, staðan 13-14.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og virtist ekkert geta skilið liðin að. Börsungar náðu reyndar fjögurra marka forskoti snemma í síðari hálfleik, en heimamenn voru fljótir að snúa genginu við og jafna metin í stöðunni 21-21.

Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks og var staðan jöfn þegar heimamenn í Magdeburg héldu í seinustu sókn leiksins. Þar tryggði Gísli Þorgeir Kristjánsson liðinu dramatískan eins marks sigur með seinasta kasti leiksins, hans sjötta mark í leiknum, lokatölur 29-28.

Magdeburg og Barcelona deila nú toppsæti B-riðils með 22 stig hvort, en Börsungar verma þó 1. sætið með betri markatölu. Alls voru skoruð ellefu íslensk mörk í leiknum, en þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Magdeburg og Janus Daði Smárason skoraði eitt.

Þá unnu Bjarki Már Elísson og félagar hans í Telekom Veszprém öruggan sex marka útisigur gegn Montpellier, 31-37. 

Bjarki Már komst ekki á blað fyrir gestina, en Veszprém er í harðri baráttu við Barcelona og Magdeburg um beint sæti í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Liðið situr í þriðja sæti B-riðils með 20 stig, tveimur stigum minna en toppliðin tvö þegar ein umferð er eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×