Viðskipti erlent

Elsta vöru­merki Bret­lands fær nýtt út­lit

Bjarki Sigurðsson skrifar
Til vinstri má sjá gamla merkið og til hægri það nýja.
Til vinstri má sjá gamla merkið og til hægri það nýja. Lyle's Golden Syrup

Lyle's Golden Syrup hefur tekið til notkunar nýjar umbúðir á vörum sínum. Í stað rotnandi ljónshræs kemur teiknuð mynd af ljóni. Breytingin á þó einungis við sírópið sem fæst í flöskum en sírópsdósirnar vinsælu verða enn með sama útlit.

Breska ríkisútvarpið fjallar um breytinguna en um er að ræða elsta umbúðaútlit Bretlands og er í heimsmetabók Guinness sem elsta kennimerki heims. Umbúðirnar hafa verið óbreyttar í 140 ár. 

Stofnandi Lyle's Golden Syrup, Abram Lyle, var trúaður maður og sækir merkið innblástur í sögu í Gamla testamentinu. Í sögunni drepur Samson ljón með berum höndum en uppgötvar svo að býflugur sveimi yfir hræinu. Þar með ákvað hann að merkið yrði ljónshræ þar sem býflugur eru á sveimi yfir því. 

Svona líta dósirnar út en þær munu halda sínu útliti.Lyle's Golden Syrup

Nýja merkið er teiknað ljónshöfuð en býflugunum er fækkað og má aðeins sjá eina slíka þar. Litapalletan er sú sama, grænn og gulllitaður eru í aðalhlutverkum. 

Hér má sjá nýja merkið, býflugan er lítil og er á sveimi rétt vinstra megin yfir höfði ljónsins.Lyle's Golden Syrup

Í grein BBC kemur fram að ekki séu allir á par sáttir með nýja útlitið. Margir telja að þarna sé verið að skemma einstakt útlit vörunnar. 

Vegna gagnrýninnar þurfti fyrirtækið að gefa út yfirlýsingu þar sem kom fram að sírópsdósirnar, sem er þekktasta vara Lyle's Golden Syrup, muni halda upphaflega útlitinu. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×