Körfubolti

Hvað er að hjá Stjörnunni?

Siggeir Ævarsson skrifar
Stjörnumenn fagna, það gerist ekki oft, aðallega í bikarnum
Stjörnumenn fagna, það gerist ekki oft, aðallega í bikarnum Vísir/Bára Dröfn

Sérfræðingarnir í Körfuboltakvöldi ræddu dræmt gengi Stjörnunnar í Subway-deild karla, en liðið hefur tapað síðustu sex af sjö leikjum sínum og er mögulega að missa af úrslitakeppninni ef fram heldur sem horfir.

Helgi Magnússon og Sævar Sævarsson voru sérfræðingarnir í setti að þessu sinni og þeir ræddu m.a. um andleysið í leik Stjörnunnar gegn Haukum. 

„Miðað við gæði einstaklinganna þarna innanborðs þá finnst manni mjög ótrúlegt í hvaða stöðu Stjarnan er.“

Stjarnan hefur náð góðum árangri í bikarnum undanfarin ár og liðið er komið í undanúrslit núna, en Sævar sagðist efast um að Stjarnan vilji bara vera þekkt sem bikarlið.

„Alltaf spáum við þeim og teljum að þeir séu með lið til að vera „contenders“ svo koma þeir með svona frammistöðu og gera lítið úr okkar spám.“

Helgi taldi það einsýnt að liðið stólaði um of á að hinn 41 árs, bráðum 42 ára, Hlynur Bæringsson sýndi stjörnuleik kvöld eftir kvöld.

„Vandamál Stjörnunnar er að þeir eru að treysta á það að Hlynur Bæringsson sé að skora tólf stig og taka tíu fráköst í hverjum einasta leik. Þeir eru að stóla á það. Hlynur á þessum tímapunkti á bara að vera flottur rulluspilari.“

Sævar var heldur ekki hrifnn af hinum bandaríska James Ellisor og því sem hann bætir við liðið, en Ellisor var stigalaus í seinni hálfleik gegn Haukum.

Innslagið og umræðuna í heild má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Hvað er að hjá Stjörnunni?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×