Körfubolti

Martin að komast á flug með Alba Berlin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Martin og félagar unnu sigur í dag.
Martin og félagar unnu sigur í dag. Vísir/Getty

Martin Hermansson lék í rúmar tuttugu mínútur með liði Alba Berlin sem vann góðan sigur í þýsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag.

Martin skipti yfir til Alba Berlin í janúarmánuði frá Valencia á Spáni. Hann hefur verið að komast af stað eftir erfið meiðsli og leitaði til síns gamla liðs Alba Berlin í leit að fleiri mínútum á vellinum. Þær virðist hann vera að fá því hann var í byrjunarliði Alba í dag og lék í rúmar tuttugu mínútur gegn liði Rasta Vechta.

Martin skoraði 8 stig, gaf 2 stoðsendingar og tók 1 frákast í 94-89 sigri en Alba Berlin er í þriðja sæti deildarinnar.

Þetta var fjórði leikur Martins síðan hann gekk til liðs við Alba á nýjan leik og er það góðs viti fyrir íslenska landsliðið að Martin sé að komast á flug á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×