Viðskipti innlent

Össur Kristins­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ösur Kristinsson stofnaði stoðtækjafyrirtækið Össur árið 1971.
Ösur Kristinsson stofnaði stoðtækjafyrirtækið Össur árið 1971. Össur hf.

Össur Kristinsson, stofnandi stoðtækjafyrirtækisins Össurar, er látinn, áttræður að aldri. Hann lést á Landspítalanum síðastliðinn þriðjudag.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Þar kemur fram að Össur hafði fæðst með stuttan fót og snemma fengið áhuga á stoðtækjum og fræði þeirra. Hann hafi svo haldið til Stokkhólms í Svíþjóð til náms, nítján ára að aldri.

Össur sneri aftur til Íslands árið 1970 og ári síðar stofnaði hann stoðtækjafyrirtækið Össur. Tók þá við þróunarvinna og skipti sköpum fyrir fyrirtækið þegar Össur þróaði sílikonhulsuna.

Vöxtur fyrirtækisins var mikill á tíunda áratugnum og fór félagið á hlutabréfamarkað árið 1999 og var svo skráð á markað í Danmörku tíu árum síðar. Hjá fyrirtækinu starfa nú um fjögur þúsund manns í 36 löndum.

Hann lét af störfum hjá Össuri um svipað leyti og hann stofnaði fyrirtækið Rafnar. Hann var sæmdur fálkaorðu árið 2002 fyrir frumkvöðlastörf.

Björg Rafnar læknir var eiginkona Össurar, en hún lést árið 2017. Þau eignuðust börnin Bjarna og Lilju.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×