Skoðun

Ör­laga­stund?

Margrét Kristín Blöndal skrifar

Hvers konar veruleika höfum við búið okkur eiginlega?

Getum við aðeins staldrað við og opnað augun eitt augnablik?

Hér við völd er fullkomlega óhæf ríkisstjórn, sem á okkar heimssögulegum örlagatímum neitar að bregðast við þegar þjóðarmorð er framið í beinni útsendingu.

Hér er við völd fólk sem hefur vaknað 124 sinnum upp að morgni við beinar lýsingar af slátrunarhrinu Ísraels á Palestínsku þjóðinni en ákveður í hvert sinn að beita alls ekki valdi sínu því til fordæmingar.

Hún beitir hins vegar valdi sínu í reynd til að auka á þjáningar fólks frá Palestínu.

Það gerir hún með því að standa sjálf í vegi fyrir því að palestínskar fjölskyldur sem þegar hafa fengið hér dvalarleyfi, vegna fjölskyldusameiningar, megi sameinast.

Af hverju ríkisstjórnin bregst þannig við þjóðarmorði og hryllilegum afleiðingum þess er ekki vitað.

Hún vill ekki svara því.

Það sem við vitum hins vegar er að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur verið iðinn við að:

  • Ljúga til, um meint flækjustig framkvæmdarinnar, líkt og það sé íþrótt.
  • Sýna palestínsku þjóðinni fullkomna fyrirlitningu með því að gera ekkert, til að koma þeim sem hægt væri að koma til hjálpar, til hjálpar.
  • Svara þeim Palestínumönnum í engu, þeim sem hér bíða í algerri örvæntingu eftir ástvinum sínum og hundsa algerlega kröfur þeirra og beiðnir um samtal.
  • Gera lítið úr mótmælum þess sama fólks á opinberum vettvangi.
  • Smætta þannig baráttu þeirra fyrir því að fá börnin sín og fjölskyldur heimtar úr því víti sem Ísraelsstjórn og her hefur gert land þeirra að.
  • Láta sig engu varða þrotlaus mótmæli almennings.

Við horfum upp á stjórnvöld sem sýna ekkert annað af sér en að þau vilji bara halda áfram að gera ekkert. Ekkert nema kannski að halda áfram með samúðarsvip að fylgjast með litlum börnunum og foreldrum þeirra á Gaza sprengdum til limlestingar eða dauða.

Þau sýna engin önnur viðbrögð.

Þau gera ekkert.

Stjórnvöld sem ljúga upp í opið geðið á þjóð sinni hvenær sem þeim dettur í hug um jafnalvarleg mál og þessi, mál sem varða líf fólks og dauða, eru allsendis óhæf.

Stjórnvöld sem hafa í hendi sér örlög lítilla barna en kjósa meðvitað að líta undan á meðan drápsvélin eirir engu...

Við höfum lesið um svona fólk í sögubókum.

Það er nauðsynlegt að við opnum augun fyrir því sem er að gerast.

Sameiginlega getum við hafnað aðgerðarleysi og siðleysi ríkisstjórnarinnar sem er öll ábyrg.

Stöndum með samvisku okkar og sameiginlegri sálarheill.

Stöndum með mannúð.

Alltaf.

Stjórnvöld veittu leyfi til að fjölskyldur mættu sameinast en eru að svíkja það, meðvituð um harminn.

Meðvituð um að Gaza er hættulegasti staður á jörðinni.

Meðvituð um að dauðinn nálgast fjölskyldurnar eins og alla aðra á Gaza og nú víðar, á ógnarhraða, ef ekki með sprengjuregni, þá hungri, kulda og sjúkdómum. Hver mínúta skiptir máli!

Það tæki Bjarna Benediktsson eitt símtal að greiða úr þessu.

Einn diplómatapassa.

Það er allt og sumt.

Það er vitað.

Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×