Körfubolti

„Fyrsta sinn sem svona mál kemur upp“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ.
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ. Vísir/Arnar

Körfuknattleikssamband Íslands er með á sínu borði meinta fölsun félagsskiptapappíra. Framkvæmdastjóri sambandsins segir málið litið alvarlegum augum.

Félagsskipti Írenu Sólar Jónsdóttir milli grannfélaganna Keflavíkur og Njarðvíkur á dögunum hafa dregið dilk á eftir sér. Ingvi Þór Hákonarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, á að hafa skrifað undir skipti Írenu til Njarðvíkur en kannast ekki við slíkt. Þó var undirskrift hans á félagsskiptablaði sem skilað var inn til KKÍ. Njarðvíkingar hafi því falsað undirskrift hans.

Framkvæmdastjóri KKÍ segir mál sem þetta einsdæmi.

„Þetta er sérstakt og í fyrsta sinn sem svona mál kemur upp hjá okkur og er leiðindamál. Við erum að vinna í því og tókum það hér fyrir hjá okkur í morgun,“ sagði Hannes S. Jónsson.

Hvað sérð þú fyrir þér sem næstu skref í þessu máli?

„Í raun er það þannig að þær upplýsingar eru að viðkomandi aðili sem á að hafa skrifað undir segist ekki hafa gert það. Það sem við gerðum í morgun var að afturkalla leikheimild viðkomandi leikmanns. Viðkomandi leikmaður er því ekki með leikheimild með Njarðvík eins og staðan er í dag.“

Félagaskiptin eru í raun ógild og Írena Sól því enn leikmaður Keflavíkur og gæti spilað með þeim næsta leik í Subway-deildinni.

Hannes segir þá að einhver mistök hafi átt sér stað og málið sé áfram til skoðunar. Á meðan sé Írena áfram leikmaður Keflavíkur.

„Ég held þetta sé ekki gert með illum hug. ég held það verði að koma skýrt fram, ég held að viðkomandi aðilar voru ekki að gera þetta af illum hug. Við þurfum að leysa það en að sjálfsögðu er alltaf alvarlegt þegar svona lagað er og þess vegna höfum við tekið þessa leikheimild til baka eins og staðan er núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×