Viðskipti innlent

130 starfs­menn Vísis falla af launa­skrá

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Grindavík jarðskjálftar
Grindavík jarðskjálftar

Í dag fengu 130 starfsmenn Vísis bréf þar sem þeim var tjáð að þeir yrðu teknir af launaskrá fyrirtækisins og fari á úrræði ríkisins. Ástæðan séu náttúruhamfarirnar í Grindavík, þar sem fyrirtækið hefur verið starfrækt. 

Á vef Vísis hf. segir að ekki sé um rof á ráðningasambandi að ræða. Eftir séu 60 manns í landi sem vinni við þau verkefni sem eru í gangi, þar á meðal saltfiskvinnsluna í Helguvík.

Þá segir að verklagsreglur Almannavarna hamli því að starfsemi sé haldið úti í Grindavík að öllu leyti eða hluta. Tekist hafi að hefja starfsemi með saltfisk á tveimur nýjum stöðum en starfsmenn þar séu færri en annars væri og verkefnin hafi breyst. Nánari útfærsla hvað það varðar verði kynnt í vikunni.

Í bréfinu til starfsmanna kemur fram að ákveðið hefði verið að stöðva greiðslu launa til starfsfólks í landi sem ekki er í vinnu frá og með deginum í dag. Starfsfólk sé hvatt til að sækja beint um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga um tímabundinn stuðning til launagreiðsla. 

Þrátt fyrir að starfsmennirnir 130 hafi verið teknir af launaskrá kemur fram að ráðningarsambandi við þá rofni ekki og þegar starfsemi hefst aftur í Grindavík geti starfsfólk hafið störf að nýju. 

Unnið verði að því að tryggja rekstrargrundvöll félagsins í gegnum núlíðandi óvissutíma og haldið verði áfram að þrýsta á yfirvöld að gera þeim kleift að halda áfram starfsemi í Grindavík að gættu fyllsta öryggis.  





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×