Viðskipti innlent

Hópuppsögn í Grinda­vík: „Erfiðasta á­kvörðun sem við höfum tekið í lífinu“

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Við erum búnir að vera með sama fólkið hjá okkur í mörg mörg ár,“ segir Hermann Th. Ólafsson, framkvæmdastjóri Stakkavíkur.
„Við erum búnir að vera með sama fólkið hjá okkur í mörg mörg ár,“ segir Hermann Th. Ólafsson, framkvæmdastjóri Stakkavíkur. Vísir/Samsett

„Þetta er erfiðasta ákvörðun sem við höfum tekið í lífinu, að gera þetta. Það var bara ekki annað hægt,“ segir Hermann Th. Ólafsson, framkvæmdastjóri Stakkavíkur ehf. í samtali við fréttastofu vegna hópuppsagnar sem fór fram hjá fyrirtækinu um nýliðin mánaðamót.

„Þetta er ekkert grín, en það var ekki hjá þessu komist.“

Greint var frá því í dag að 47 starfsmönnum matvælafyrirtækis hefði verið sagt upp í janúar. Hermann segist ekki með töluna á uppsögnunum hjá þeim á hreinu, en telur nokkuð ljóst að þarna sé átt við um Stakkavík.

Stakkavík starfar frá Grindavíkurbæ og vegna jarðhræringanna sem gengið hafa yfir síðustu mánuði þykir ótækt að halda stórum hluta starfseminnar áfram.

„Við erum með landvinnslu og við erum með skip. Við erum að vinna fisk sem fer aðallega í flug,“ segir Hermann sem útskýrir að starfsmönnum landvinnslunnar hafi verið sagt upp þar sem að húsnæði fyrirtækisins sé ónýtt.

„Við urðum fyrir skakkaföllum í jarðskjálftunum, þá varð fyrirtækið fyrir miklum skemmdum. En við rétt sluppum í gegn með það að Náttúruhamfaratrygging leyfði okkur að laga það. Við fórum af stað að reyna að laga, en þá kemur þessi gliðnun og skjálftar sem komu síðan. Það fór miklu verr með húsin og þar með var þetta dæmt ónýtt. Þeir flautuðu leikinn af og þar með var ekkert annað að gera hjá okkur nema að fara í þessar leiðindaframkvæmdir, sem allir skilja náttúrulega, að segja fólkinu upp.“

Hermann segir að Stakkavík hafi hafið starfsemi árið 1988, þá með þrjá starfsmenn, og vaxið mikið síðan þá. Á síðustu árum hafi fyrirtækið verið í mikilli sókn, en náttúruhamfarirnar hafi eyðilagt það.

„Við erum búnir að vera með sama fólkið hjá okkur í mörg mörg ár,“ segir Hermann og bætir við að allir séu miður sín vegna málsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×