Handbolti

Karabatic hefur unnið ellefu gull með franska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic lyftir hér Evrópumeistarabikarnum í fjórða sinn á ferlinum.
Nikola Karabatic lyftir hér Evrópumeistarabikarnum í fjórða sinn á ferlinum. Getty/Tom Weller

Frakkinn Nikola Karabatic er af flestum talinn vera besti handboltamaður allra tíma og hann er að minnsta kosti sá sigursælasti. Kappinn fagnaði enn einum titlinum í gær.

Karabatic bætti við glæsilega titlaskrá sína í gær þegar franska landsliðið varð Evrópumeistari eftir sigur á Dönum í framlengdum úrslitaleik í Köln.

Karabatic er orðinn 39 ára gamall og mun hætta með franska landsliðinu eftir Ólympíuleikanna í París í sumar. Hann vonast eftir að hætta á toppnum.

Upptalning á titlum hans með franska landsliðinu er orðin löng lesning.

Hann var í gær að vinna Evrópumeistaramótið í fjórða sinn en þetta var reyndar fyrsta EM-gull hans í tíu ár. Hann varð einnig Evrópumeistari 2006, 2010 og 2014.

Karabatic hefur alls unnið ellefu stórmót með franska landsliðinu og ef hann vinnur Ólympíugullið í sumar þá hefur hann unnið öll þrjú stórmótin, ÓL, HM og EM fjórum sinnum.

Karabatic hefur einnig unnið sex önnur verðlaun með landsliðinu og því alls sautján verðlaun á stórmótum sem skiptast þannig: Ellefu gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og fern bronsverðlaun.

Hans fyrsta stórmót var Evrópumótið árið 2004 og síðan hefur hann aðeins misst af einu stórmóti á tuttugu árum sem var HM 2021.

Karabatic hefur einnig unnið Meistaradeildina þrisvar sinnum og alls 21 landstitli í Frakklandi (15), á Spáni (2) eða í Þýskalandi (4). Við það bætast síðan yfir tuttugu bikartitlar og tveir heimsmeistaratitlar félagsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×