Viðskipti innlent

Tvær af hverjum þremur seldust undir á­settu verði

Atli Ísleifsson skrifar
Síðastliðinn nóvember hafði hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði svo lækkað niður í 13,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Síðastliðinn nóvember hafði hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði svo lækkað niður í 13,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Egill

Um 64 prósent íbúða sem seldar voru á höfuðborgarsvæðinu í nóvember síðastliðnum seldust undir ásettu verði, en einungis 14 prósent þeirra voru seld yfir ásettu verði. 

Þetta kemur fram í upplýsingum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur unnið úr útgefnum kaupsamningum og segir frá á heimasíðu stofnunarinnar.

Fram kemur að hlutfall íbúða sem hafi selst yfir ásettu verði hafi tekið viðsnúning frá apríl 2022, þegar eftirspurnarþrýstingur hafi verið mikill á húsnæðismarkaði. Í þeim mánuði gafu meirihluti íbúða í flestum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði.

„Síðastliðinn nóvember hafði hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði svo lækkað niður í 13,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu, en íbúðir í póstnúmerum 107, 101 og 111 hafa gengið kaupum yfir ásettu verði um og yfir 20 prósent tilvika síðastliðna þrjá mánuði.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðis hafa 6,8 prósent íbúða gengið kaupum og sölum yfir ásettu verði síðastliðna þrjá mánuði. Íbúðir í Reykjanesbæ hafa í yfir 15 prósent tilvika gengið kaupum yfir ásettu verði á umræddu tímabili. Annars staðar á landinu er hlutfallið 8,7 prósent.

HMS

Mark­að­ur­inn í meira jafn­vægi en árið 2022

Lægra hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði eru vísbendingar um að húsnæðismarkaðurinn sé í meira jafnvægi þessa stundina en árið 2022.

Svipaðar vísbendingar eru að finna í nýjustu mánaðarskýrslu hagdeildar HMS. Samkvæmt skýrslunni hefur svokallaður birgðartími íbúða á höfuðborgarsvæðinu, sem mælir hversu hratt núverandi framboð íbúða myndi seljast upp, aukist úr tæplega 1 mánuði árið 2022 upp í 4 mánuði í nóvember síðastliðnum. Almennt þykir birgðartími á bilinu 3 til 6 mánuðir merki um heilbrigðan markað sem er hvorki á valdi kaupenda né seljenda,“ segir á vef HMS.


Tengdar fréttir

Óumflýjanleg hækkun húsnæðisverðs fari eftir útfærslum

Viðbúið er að húsnæðisverð hækki þegar Grindvíkingar koma inn á fasteignamarkaðinn að sögn fjármálaráðherra. Hagfræðideild Landsbankans segir áhrif á þenslu og verðbólgu meðal annars fara eftir því hvort gripið verði til skuldsetningar eða skattheimtu.

Haldi þróunin áfram muni birgðir nýrra íbúða klárast á árinu

Framboð á nýjum íbúðum á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess hefur minnkað. Muni núverandi þróun halda áfram munu birgðir nýrra íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins klárast á þessu ári.

Söluminnsta fasteignaár í tæpan áratug

Árið í ár var það söluminnsta á fasteignamarkaðinum frá árinu 2014. Þetta segir Páll Pálsson fasteignasali í viðtali í Reykjavík síðdegis í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×