Skoðun

Sam­kennd er sam­fé­lags­leg verð­mæti

Brynhildur Björnsdóttir skrifar

Í dag er hálf öld, eitt ár og einn dagur síðan framtíðin sem íbúar Vestmannaeyja sáu fyrir sér kollvarpaðist á einnu nóttu. Eins og þar og þá stendur samfélagið í Grindavík nú frammi fyrir því að forsendur framtíðarinnar eru að bresta. Húsin standa yfirgefin, skólar eru tómir, vinnustaðurinn lokaður, félagslíf tætt, tómstundir, róluvöllurinn, göngustígurinn, garðurinn, heimilið... öllu var kippt undan fótunum í einu vettvangi, bókstaflega.

Íslendingar þekkja því miður alltof vel til náttúrunnar og hversu óblíð hún getur verið. Í gegnum aldirnar höfum við upplifað eldsumbrot, skriðuföll, snjóflóð, sjávarháska og jarðskjálfta svo fátt eitt sé nefnt. Hér hefur byggst upp harðgert og traust samfélag þar sem samkenndin er grunnstilling og það þarf ekki mikið til að öll óeining sé lögð til hliðar þegar þörf er á og samfélagið leggist allt á eitt, óháð efnahag, stétt eða stöðu, til að hlúa að hvert öðru og leysa sameiginlega þau verkefni sem að steðja.

Nú veltum við fyrir okkur framtíð bæjarfélagsins Grindavíkur en ekki síður samfélagsins þar.

Ríkisstjórnin hefur nálgast spurningarnar um framtíð Grindavíkur með því að virkja kosti samfélagsins til að komast að þeirri niðurstöðu sem er best fyrir sem flest. Aðgerðirnar hafa frá byrjun einkennst af virðingu fyrir vilja Grindvíkinga og verið metnar út frá samtölum við íbúana fyrst og fremst.

Það er mikilvægt að íbúar Grindavíkur, eins og íbúar Vestmannaeyja fyrir hálfri öld, fái tíma, þolinmæði og stuðning í fordæmafáum aðstæðum.

Ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum unnið að því að gefa samfélaginu í Grindavík færi á skjóli og andrými á meðan þau takast á við það flókna verkefni að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð sína.

Samfélag er nefnilega ekki bara landafræðileg staðsetning húsa. Samfélag er sameiginleg hugmynd um hagsmuni, um jöfnuð og systkinalag, sameiginlega sjóði sem ráðstafað er til verkefna sem gagnast öllum, sameiginlega framtíðarsýn. Helstu verðmæti samfélags er ekki gatnakerfi eða innviðir, þó það sé vissulega mikilvægt, heldur samfélagsvitund og samkennd.

Í Vestmannaeyjum var bæjarfélag endurbyggt a hrauninu. Hver svo sem niðurstaðan verður um framtíð Grindavíkur þá á samfélagið þar stuðning stærra samfélagsins, ríkisstjórnarinnar og okkar allra, vísan.

Höfundur er þingmaður VG.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×