Körfubolti

Gamli Haukur mættur aftur: „Einn af okkar allra bestu frá upp­hafi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson er að komast í sitt besta form.
Haukur Helgi Pálsson er að komast í sitt besta form. Vísir/Hulda Margrét

„Sá skilaði framlagi,“ sagði Stefán Árni Pálsson, stjórnandi Körfuboltakvölds, um frammistöðu Hauks Helga Pálssonar í leik Álftaness og Breiðabliks í síðustu umferð Subway-deildar karla í körfubolta.

Haukur Helgi skoraði 33 stig og tók 14 fráköst í sex stiga sigri Álftnesinga gegn Blikum síðastliðinn fimmtudag og Helgi Már Magnússon, sérfræðingur þáttarins, var ánægður að sjá gamla góða Hauk mættan aftur á völlinn.

„Ég minntist nú á þetta einhverntíman fyrir jól að það var svona farið að glitta í gamla Hauk. Hauk eins og við þekkjum hann fyrir þessa meiðslahrinu sem hann er búinn að vera í,“ sagði Helgi.

„Hann er orðinn svakalega hreyfanlegur finnst mér og hann er allt annar leikmaður. Sækir meira á körfuna og getur tekið kontaktinn og varnarlega er hann náttúrulega bara ótrúlega góður. Þetta eru frábærar fréttir fyrir deildina því þetta er leikmaður sem við viljum sjá upp á sitt besta.“

„Svo eru þetta auðvitað góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið því það er leikur núna í febrúar. Vonandi að Haukur verði klár þá því þetta bara einn af okkar allra bestu frá upphafi,“ bætti Helgi við, en innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Gamli Haukur mættur aftur: Einn af okkar allra bestu frá upphafi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×