Handbolti

„Held að ég sé góður í þessu“

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson sýndi skemmtileg svipbrigði í fótboltaupphitun landsliðsins á æfingu í gær. Hann segir mikilvægt að hafa léttan anda í aðdraganda móts sem vonandi verði langt og strangt.
Snorri Steinn Guðjónsson sýndi skemmtileg svipbrigði í fótboltaupphitun landsliðsins á æfingu í gær. Hann segir mikilvægt að hafa léttan anda í aðdraganda móts sem vonandi verði langt og strangt. VÍSIR/VILHELM

Snorri Steinn Guðjónsson er búinn að undirbúa leikmenn sína eins og best hann getur fyrir leikinn við Serbíu í dag, sinn fyrsta leik sem þjálfari á stórmóti í handbolta. Hann forðast þó að drekkja mönnum í upplýsingum.

„Mér finnst þetta bara mjög náttúrulegt og mér líður bara vel með þetta. Finnst þetta alls ekki yfirþyrmandi og held að ég sé bara góður í þessu. Það kemur þá bara í ljós [í dag], eins og gengur og gerist. Fókusinn og löngunin í að standa sig vel er sterkara heldur en hitt,“ sagði Snorri á æfingu landsliðsins í gær.

Á þeirri æfingu, rúmum sólarhring fyrir leikinn mikilvæga við Serba, var sá létti andi sem Snorri vill að sé til staðar þegar það á við, þó að hann væri ekki endilega hrifinn af lagavali leikmanna sinna. Andinn sé góður:

„Já, og ég skynjaði það svo sem bara líka þegar ég kom inn. Auðvitað á þetta bara að vera þannig. Ég þekki þetta bara svona, það á að vera gaman. Vonandi verður þetta langt og strangt mót hjá okkur, og það verða alveg þyngsli. Það er alveg brekka að vera saman í tæpan mánuð, svo það er eins gott að það sé létt yfir þessu svona rétt fyrir fyrsta leik,“ sagði Snorri.

Klippa: Snorri einbeittur fyrir fyrsta leik á EM

Getur ekki drekkt mönnum í upplýsingum

Leikurinn við Serba er algjör lykilleikur upp á framhaldið hjá Íslandi og Snorri hefur haldið nóg af vídjófundum til að undirbúa sína menn:

„Já, já. Við byrjuðum snemma að leggja inn, strax heima á Íslandi þegar undirbúningurinn byrjaði. Við reyndum svolítið að miða allt við þennan leik við Serba, án þess að fara neitt fram úr okkur í því. Það er eitt og annað sem þarf að skoða hjá þeim. Þeir eru fjölbreyttir og margt sem þarf að varast.

En þú getur ekki alveg drekkt mönnum í upplýsingum. Þeir þurfa að vera fókuseraðir, láta þetta allt sinka inn og undirbúa sig vel. Svo snýst þetta allt um að gera hlutina á leikdegi,“ sagði Snorri en hvað vill hann sjá frá sínu liði í dag?

Vill að það sé mikið af mörkum

„Ég vona að við náum upp okkar leik. Ég vil að það sé hraði og dínamík, og að við séum beinskeyttir. Að það sé þungur sóknarbolti í gangi án þess að það eigi að bitna á varnarleiknum. Ég hef aldrei farið í felur með það að ég vil skora mikið af mörkum, að það séu mörk í mínum leikjum. Það er lykilatriði að við náum upp okkar leik en við þurfum að vera á varðbergi með að einhvern tímann kemur það til með að hiksta eða klikka, og þá þurfum við að geta brugðist við því.“

Fyrsti leikur Íslands á EM er við Serbíu í dag klukkan 17. Íþróttadeild Sýnar er í München og mun fjalla ítarlega um allt sem tengist leiknum í máli og myndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×