Viðskipti innlent

Sigur­borg Ósk til SSNE

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir mun hefja störf hjá SSNE.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir mun hefja störf hjá SSNE. Vísir/Vilhelm

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir hefur hafið störf hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Hún mun hafa aðsetur á skrifstofu sambandsins á Stéttinni, Húsavík.

Þetta kemur fram á vef samtakanna. Sigurborg Ósk var formaður skipulags-og samgönguráðs Reykjavíkurborgar frá 2018 til 2021. Það árið hætti hún óvænt í borgarstjórn og sagði frá því í viðtali við Fréttablaðið að það væri vegna veikinda.

Í tilkynningu SSNE segir að Sigurborg muni koma inn í ýmis verkefni. Þau séu einkum í tengslum við umhverfis-og skipulagsmál. Auk þess muni Sigurborg koma að verkefnum í tengslum við Sóknaráætlun Norðurlands eystra líkt og fjölmenningarráði Norðurlands eystra.

Fram kemur að Sigurborg sé fædd og uppalin á Kjalarnesi en sé nú búsett á Húsavík. Hún sé með BS gráðu í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Meistaragráðu í landsslagsarkitektúr frá Arkitekta- og hönnunarskólanum í Osló.

„Sigurborg hefur víðtæka reynslu af umhverfis- og skipulagsmálum, bæði sem kjörin fulltrúi og fagmanneskja. Hún starfaði áður í borgarstjórn og var formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, varaformaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur og ásamt því að vera formaður Svæðisskipulagsnefndar Höfuðborgarsvæðisins.“

Hún hafi leitt vinnu við mörg af mikilvægustu umhverfismálum samtímans, þar á meðal endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur, mótun nýrrar aðgerðaráætlunar í loftlagsmálum, mótun nýrrar hjólreiðaáætlunar, mótun nýrrar umferðaröryggisáætlunar, undirbúning Borgarlínu og forgangsröðun vistvænna ferðamáta.

Segir SSNE að Sigurborg hafi mikinn metnað í öllu sem viðkemur umhverfismálum og mannréttindum. Haft er eftir Sigurborgu að lykilinn að því að ná árangri í umhverfismálum sé að auka jafnrétti kynjanna og gefa íbúum rödd í allri stefnumótun hjá sveitarfélögum. Hún hlakki mikið til að fá að taka þátt í því öfluga starfi sem einkenni sveitarfélögin á Norðurlandi eystra.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×