Körfubolti

Góð byrjun ný­liðanna dugði ekki til

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daniela Wallen fór fyrir sínu liði í kvöld.
Daniela Wallen fór fyrir sínu liði í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík vann góðan tuttugu stiga sigur er liðið heimsótti nýliða Snæfells í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld, 67-87.

Snæfellingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og höfðu sex stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta. Liðið hélt áfram í upphafi annars leikhluta og náði mest 13 stiga forskoti. Þá vöknuðu Keflvíkingar hins vegar til lífsins og sneru taflinu sér í hag áður en flautað var til hálfleiks.

Keflvíkingar unnu annan leikhluta með átta stiga mun og leiddu með tveimur stigum í hálfleikshléinu, staðan 42-44.

Gestirnir frá Keflavík höfðu svo völdin í síðari hálfleik og náði fljótlega öruggu forskoti. Keflvíkingar litu aldrei um öxl eftir það og unnu að lokum tuttugu stiga sigur, 67-87.

Daniela Wallen var stigahæsti leikmaður Keflavíkur með tuttugu stig, en hún tók einnig 14 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Í liði Snæfellinga var Shawnta Shaw atkvæðamest með 16 stig og tíu fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×