Körfubolti

Segja að Martin sé búinn að semja við Alba Berlin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Martin í leik með liði Valencia
Martin í leik með liði Valencia Vísir/Getty

Spænski körfuboltavefurinn Piratas del Basket greinir frá því nú í kvöld að Martin Hermannsson sé nú þegar búinn að ná samkomulagi við þýska félagið Alba Berlín. 

Þetta kemur fram á spænska miðlinum Piratas del Basket. Martin var í dag orðaður við endurkomu til síns gamla félags en hann leikur nú með Valencia á Spáni og hefur gert síðan árið 2020.

Á spænska miðlinum kemur fram að Martin eigi í viðræðum við Valencia um riftun á samningi. Þegar hann verði laus allra mála á Spáni muni hann ganga til liðs við Alba Berlin þar sem hann lék á árunum 2018-2020. Martin var ekki í leikmannahópi Valencia í kvöld þegar liðið vann sigur á Anadolu Efes Istanbul í Evrópudeildinni.

Martin sleit krossband í maí 2022 og hefur hægt og rólega verið að snúa aftur á körfuboltavöllinn. Hann hefur fengið fáar mínútur með Valencia að undanförnu og nú þegar nýr bakvörður hafi bæst í hópinn hjá liðinu sér Martin væntanlega fram á enn færri spilmínútur.

Piratas del Basket segir að Martin hafi nú þegar náð samkomulagi við Alba Berlin um samning til ársins 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×