Handbolti

Dagarnir sem þjóðin ætti að taka frá

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið stendur í ströngu í janúar, eins og mörg undanfarin ár.
Íslenska landsliðið stendur í ströngu í janúar, eins og mörg undanfarin ár. VÍSIR/VILHELM

Það styttist óðum í að EM karla í handbolta hefjist og þau sem vilja hafa vaðið fyrir neðan sig ættu ef til vill að skrá hjá sér hvenær strákarnir okkar spila sína leiki.

Íslenska landsliðið hefur verið við æfingar hér á landi en heldur svo til Austurríkis á morgun þar sem liðið spilar tvo vináttulandsleiki, á laugardag og mánudag.

Strákarnir fara svo yfir landamærin til Þýskalands, nánar tiltekið til München, þar sem fyrsti leikur á EM verður við Serbíu föstudaginn 12. janúar. Áhuginn á þeim er að vanda afar mikill og búist er við að um 4.000 Íslendingar verði á svæðinu í München.

Leikirnir á EM verða í minnsta lagi þrír, en komist Ísland upp úr sínum riðli bætast við fjórir leikir í milliriðli. Loks er auðvitað möguleiki á leik í undanúrslitum, og í kjölfarið leik um gull- eða bronsverðlaun.

Dagskrána hjá íslenska landsliðinu má sjá hér að neðan.

Dagskrá íslenska landsliðsins

  • Laugardagur 6. janúar, kl. 17.15:
  • Austurríki – Ísland, vináttulandsleikur
  • Mánudagur 8. janúar, kl. 17.10:
  • Austurríki – Ísland, vináttulandsleikur
  • Föstudagur 12. janúar, kl. 17.00:
  • Ísland – Serbía, C-riðill
  • Sunnudagur 14. janúar, kl. 17.00:
  • Svartfjallaland – Ísland, C-riðill
  • Þriðjudagur 16. janúar, kl. 19.30:
  • Ísland – Ungverjaland, C-riðill

Ekki liggur fyrir hvort Ísland spilar fleiri leiki en fari svo að liðið komist upp úr C-riðlinum bíða í milliriðlinum í Köln fjórir afar sterkir mótherjar. Sennilegast er að það verði Frakkland, Spánn, gestgjafar Þýskalands og Króatía.

Riðlar og milliriðlar á EM karla í handbolta. Eins og sjá má fer Ísland í milliriðil I með liðum úr A- og B-riðli.VÍSIR

Leikdagarnir í milliriðli:

  • 18. janúar
  • 20. janúar
  • 22. janúar
  • 24. janúar

Tvö efstu liðin í milliriðlinum komast svo áfram í undanúrslitin 26. janúar sem einnig eru leikin í Köln, líkt og leikirnir um gull- og bronsverðlaunin sem fram fara 28. janúar.

Ef allt gengur eins og í ævintýri og Ísland spilar um verðlaun á mótinu mun liðið því leika alls ellefu landsleiki á 22 dögum í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×