Handbolti

„Þægi­legt mark­mið að stefna á Ólympíu­leikana“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson er landsliðsfyrirliði í handbolta.
Aron Pálmarsson er landsliðsfyrirliði í handbolta. vísir/Sigurjón

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson segir að nýr landsliðsþjálfari Snorri Steinn Guðjónsson sé góður í því að kveikja í mönnum fyrir stórmótið sem framundan er.

Ísland tekur þátt á Evrópumótinu í Þýskalandi í næsta mánuði. Liðið er með Ungverjum, Svartfellinum og Serbum í riðli sem spilaður er í Munchen. Fyrsti leikurinn er gegn Serbum 12. janúar.

„Eiginlega bara hvernig hann talar og náttúrulega hvað hann segir. Metnaðaðarfullur og markmiðin skýr. Mér finnst hann allavega ná vel til mín, bæði hvað hann er að segja og hvernig hann segir það,“ sagði Aron í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson.

Aron er nú kominn með þjálfara sem hann spilaði sjálfur með í landsliðinu í mörg ár. Er það ekkert skrýtið?

„Sko, nei ekki kannski beint skrýtið. Þegar við hittumst tveir þá erum við kannski meiri félagar, við getum orðað það þannig. Svo höfum við átt fundi þar sem hann er landsliðsþjálfari og ég bara leikmaður og fyrirliði. Við náum alveg að stilla okkur inn á það.“

Töluverðar væntingar eru gerðar til íslenska liðsins á Evrópumótinu í ár en það hefur lítil áhrif á Aron.

„Við erum búnir að vera með gríðarlega væntingar síðustu ár til okkar. Við höfum lært mjög mikið af síðustu árum, sérstaklega síðustu tveimur eða þremur. Ég hef bullandi trú á því að við munum ráða vel við það. Við erum með góð markmið og mér finnst það svolítið þægilegt markmið að stefna á Ólympíuleikana því það segir sig sjálft að þá þurfum við að ná góðum áragnri.“

Allt innslagið úr Sportpakka kvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×