Körfubolti

Finnur Freyr: Jafnvel þó við værum al­veg heilir þá værum við á­nægðir

Árni Jóhannsson skrifar
Finnur fer yfir málin með sínum mönnum í leikhléi
Finnur fer yfir málin með sínum mönnum í leikhléi Vísir / Anton Brink

Valur náði að enda fyrri hluta Subway deildar karla á besta veg með því að vinna Njarðvíkinga í leik sem varð spennandi í lokin en bæði lið áttu kannski ekki sinn besta dag. Valur gerði nóg og vann 91-87 sigur sem kemur þeim á topp deildarinnar í að minnsta kosti sólarhring. 

Finnur var sáttur með sigurinn en var sammála blaðamanni að leikurinn bæri þess merki að liðin væru á leið í jólafrí.

„Það er ágætis hugsun. Manni finnst þessir leikir sem eru þeir síðustu fyrir jól verða svona. Allir lemstraðir eftir það sem á undan er gengið og langt síðan það var pása. Ég er gríðarlega sáttur með sigurinn. Miðað við hvernig ástandið er þá skiptir hver einasti sigur máli og það skiptir máli að taka inn sigra.“

En miðað við ástandið á liði Vals, sem hefur átt við meiðsli að glíma, þá hlýtur uppskeran að vera góð en Valur hefur unnið átta leiki af 11.

„Klárlega. Jafnvel þó við værum alveg heilir þá værum við ánægðir með þessa stöðu. Þessir þrír leikir sem við töpum þá erum við yfir í hálfleik í þeim öllum, fáum á okkur rosalega körfu í Keflavík og eitthvað þannig. Á sama tíma erum við að ná í sigra eftir að hafa snúið leikjum við og deildin hefur verið dálítið skrýtin. Það er búið að vera rosalega mikið af meiðslum og það hefur einnkennt deildina..  Njarðvíkingar missa Mateo, það er mikið búið að ganga á á Króknum.“ 

„Svo er það náttúrlega ástandið í Grindavík, bæði meiðsli í byrjun og svo áfram. Stjarnan missir menn í byrjun. Þetta er búið að vera óvanalegt og það þarf einhver að finna skýringu á því. Þetta hefur litað deildina svolítið mikið. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig deildin þróast þegar liðin verða fullmönnuð.“

Það kom í ljós í vikunni að Kári Jónsson myndi að öllum líkindum missa af öllu tímabilinu eftir uppskurð sem hann þurfti að gangast undir. Ætla Valsmenn að bregðast við þeirri stöðu á einhvern hátt?

„Þetta fór svona á versta veg. Við vorum búnir undir það að vera án hans í einhvern tíma en svo teygðist það alltaf lengra og lengra og svo kom í ljós að hvíldin var ekki nóg og hann þurfti að fara í aðgerð. Ekki nóg með það að hann dettur út þá fer Daði Lár í Haukana, Benóný fær heilahristing og gæti verið út allt tímabilið. Þannig að þetta eru ekki þeir sem spila mestu mínúturnar en gríðarlega mikilvægir þegar það vantar menn. Svo er Benedikt Blöndal á fæðingardeildinni og við söknum hans. En svo ég svari spurningunni þá erum við að skoða okkar mál og sjáum hvað við getum gert og fundið einhvern sem getur hjálpað liðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×