Innherji

Orku­stofnun „brestur hæfi“ til að ráð­stafa for­gangs­raforku, að mati SI

Hörður Ægisson skrifar
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri. Að mati SI hafa „misbrestir“ í starfsemi Orkustofnunar valdið verulegum töfum á allri uppbyggingu í raforkukerfinu og því sé álitamál um hæfi stofnunarinnar til að framfylgja því viðamikla hlutverki sem henni er ætlað í frumvarpi til breytinga á raforkulögum.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri. Að mati SI hafa „misbrestir“ í starfsemi Orkustofnunar valdið verulegum töfum á allri uppbyggingu í raforkukerfinu og því sé álitamál um hæfi stofnunarinnar til að framfylgja því viðamikla hlutverki sem henni er ætlað í frumvarpi til breytinga á raforkulögum.

Fyrirhugað frumvarp um breytingar á raforkulögum, sem veitir Orkustofnun heimild til að veita öðrum en stórnotendum forgang að kaupum á raforku, er gagnrýnt harðlega af Samtökum iðnaðarins sem segja að með því verði samkeppnismarkaður með raforku afnuminn og miðstýring innleidd. Þá fer SI hörðum orðum um Orkustofnun, sem að mati samtakanna brestur hæfi til að fara með þau verkefni sem henni er falin í frumvarpinu, en starfshættir stofnunarinnar eru sagðir hafa „tafið verulega alla uppbyggingu í raforkukerfinu.“

Í ítarlegri umsögn sem Samtök iðnaðarins (SI) birtu í gærkvöldi vegna frumvarpsins, sem er flutt að beiðni Guðlaugar Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, eru fjölmörg rök týnd til gegn frumvarpinu. Þá er nefnt að það sé með sólarlagsákvæði en ekkert bendir hins vegar til þess að staða raforkumála verði orðin betri eftir eitt til tvö ár. Fremur sé ástæða til að ætla, miðað við núverandi forsendur, að raforkuskorturinn verði enn meiri.

„Samþykkt frumvarpsins myndi setja slæmt fordæmi og hætta er á að umrætt lagaákvæði verði ítrekað framlengt,“ að sögn SI.

Stjórnvöld og Alþingi eru í umsögn Samtaka iðnaðarins brýnd til að leita allra leiða til að bregðast hratt við „rót vandans“ sem við blasir, raforkuskortur, og greiða götu tafarlausrar uppbyggingar í raforkukerfinu. Tryggt aðgengi að raforku sé „þjóðaröryggismál og forsenda atvinnuuppbyggingar um allt land, verðmætasköpunar og útflutnings til framtíðar, orkuskipta og árangurs Í loftslagsmálum.“

Ölum má vera ljóst að núverandi ástand ber öll þess merki að raforka er af skornum skammti hér á landi, með öðrum orkum að við öllum blasir að hér er raforkuskortur. Hins vegar er hvergi í frumvarpinu fjallað um þá alvarlegu stöðu heldur eingöngu vísað til þess að mikil umframeftirspurn sé eftir raforku.

Samtökin segja að með fyrirhugaðri lagasetningu sé verið að fara tuttugu ár aftur í tímann, þegar opnað var á samkeppnismarkað með raforku á Íslandi. Þá benda þau á að það skjóti skökku við að í greinargerð frumvarpsins er hvergi minnst á þá stöðu að raforkuframleiðsla hefur ekki haldið í við þróun samfélagsins síðastliðin 15 ár og ekki gerð grein fyrir alvarlegri stöðu í raforkumálum landsins. Með þeirri nálgun sé verið að draga athyglina frá þeim atvikum sem hafa í raun skapað þetta ástand, sem er „ófullnægjandi uppbygging“ í raforkukerinu um langt skeið, að sögn Samtaka iðnaðarins.

Þá gagnrýna SI að í frumvarpinu sé vísað í raforkuspár Orkustofnunar sem viðmið um orkunotkun enda telja samtökin að slík áætlunargerð sem viðbrögð eiga að snúa að þurfi að byggjast á „fullnægjandi og óyggjandi gögnum.“ Svo eigi ekki við um spár Orkustofnunar sem víkur frá þeim raforkuspám sem annars Landsnet hefur unnið og hins vegar þeirri sem birtist í grænbók um stöðu og áskoranir í orkumálum um þá raforkuþörf sem komandi orkuskipti kalla á.

Samtökin nefna einnig að í frumvarpinu sé engin tilraun gerð til að meta þau víðtæku áhrif sem umrætt lagaákvæði myndi hafa á atvinnulíf, almenning, verðmætasköpun, útflutning, ríkissjóð, samkeppnishæfni Íslands og stöðu hins markaðsráðandi fyrirtækis á samkeppnismarkaði með raforku. Þá sé ekki tekið tillit til þess að nú þegar eru í gildi ákvæði sem heimila skerðingu á raforku til notenda. „Brýnt er að tæma allar mögulegar leiðir til að bregðast við stöðunni áður en íþyngjandi lagaákvæði sem þetta eru sett,“ að sögn SI.

Þá gagnrýna samtökin harðlega Orkustofnun, sem fær miklar heimildir samkvæmt frumvarpinu til að ráðstafa forgangsraforku til annarra en stórnotenda, og gjalda varhug stofnuninni verði falið jafn viðamikið hlutverk og inngripsheimildir og lagt sé upp með. Að mati SI hafa jafnframt „misbrestir“ í starfsemi Orkustofnunar valdið verulegum töfum á allri uppbyggingu í raforkukerfinu og því sé álitamál um hæfi stofnunarinnar til að framfylgja þessu hlutverki sem henni er ætlað í frumvarpinu.

Í umsögn SI er vísað í því samhengi til fjölmargra ummæla Höllu Hrundar Logadóttur, orkumálastjóra, sem er sögð hafa opinberað gildishlaðnar skoðanir sínar hvað varðar starfsemi fyrirtækja á samkeppnismarkaði með raforku og notendur. Það eigi sérstaklega við um stórnotendur raforku og um leið hver vilji orkumálastjóra – og þá um leið Orkustofnunar – er varðandi með hvaða hætti og hvernig viðskipti á frjálsum markaði með raforku skuli háttað.

Að mati samtakanna hafa misbrestir í starfsemi stofnunarinnar tafið verulega alla uppbyggingu í raforkukerfinu og því álitamál um hæfi Orkustofnunar til að framfylgja þessu ætlaða hlutverki.

Með þeim ummælum hafi orkumálastjóri gefið til kynna þá skoðun sína að raforka eigi að rata í önnur verkefni en til þeirra stórnotenda sem hafa byggt upp starfsemi hér á landi. Að mati Samtaka iðnarins er því með „öllu ótækt, og í raun stjórnsýslulegir annmarkar í vegi fyrir því, að Orkustofnun verði falið það hlutverk“ sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Fram kemur í umsögn Samtaka iðnaðarins að það „veki furðu“ að í greinargerð frumvarpsins sé vísað til þess að vakin hafi verið athygli á ástandi mála með erindi Landsvirkjunar á Orkustofnun í október á þessu ári. Benda samtökin á að Orkustofnun beri að hafa eftirlit með sölufyrirtækjum raforku og ber þeim fyrirtækjum að upplýsa stofnunina um öll viðskipti með raforku.

„Er því ekki ljóst hvort og hvernig Orkustofnun hefur aflað og haldið utan um umræddar upplýsingar og verið unnt að leggja mat á mögulega sölu á raforku umfram þá raforku sem stendur til boða hverju sinni,“ að sögn SI.

Þá nefna samtökin að taka þurfi á því „tómlæti“ sem birtist í frumvarpinu um stöðu núverandi stórnotenda og möguleika á framlengingu samninga þeirra. Gagnrýnt er sömuleiðis að ekki sé umfjöllun í frumvarpinu um áhrif á þjóðréttarlegar skuldbindingar, meðal annars vegna EES samningsins, og að sama skapi liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort og hvenær boðaðar breytingar verða tilkynntar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Lagðar séu til í frumvarpinu breytingar á raforkulögum, útskýrir SI, sem miða að því að aftengja tímabundið markaðsopnun hins íslenska raforkumarkaðar, þvert á markmið raforkulaga um samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. „Er þannig lagt til að hér verði komið á miðstýringu raforkuviðskipta sem viðbragð við framangreindu andvaraleysi stjórnvalda hvað varðar orkuöflun í þágu markmiða stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi svo dæmi séu tekin.“

Í umsögn SI er einnig rifjað upp að á Íslandi sé ekki búið að koma á virkum heildsölumarkaði með raforku. Þá hefur að sama skapi ekki hefur verið sett á heimild til handa stórnotendum til að endurselja umframraforku, sé hún til staðar, inn á markað. Þannig hafa jafnframt markaðslausnir ekki verið nýttar til að stýra raforkunotkun sem ætti að vera „eðlilegt fyrsta skref“ til að bregðast við þeirri stöðu nú er komin upp, að mati SI.

Þær leiðir sem boðaðar eru í frumvarpinu eru síst til þess fallnar að leysa þá alvarlegu stöðu sem uppi er. Þvert á móti munu þær fresta óumflýjanlegum aðgerðum sem taka á hinum raunverulega vanda.

Bent er á að sala á raforku til annarra en stórnotenda stjórnist ekki af sömu markaðslögmálum enda, ólíkt því sem þekkist í nágrannalöndum okkar, stjórnast verð á raforku ekki af framboði hverju sinni. „Þannig hafa ekki náð að festa sig í sessi hvatar til að stýra raforkunotkun í gegnum verð enda er raforkuverð hér stöðugra en víða þekkist,“ segja samtökin, og bæta við:

„Að mati SI er ekki í fyrirliggjandi frumvarpi gerð tilraun til að nýta markaðslega hvata til að stýra raforkunotkun eða markaðslausnir sem að óbreyttu gæti skapað einhverja sátt um þau markmið sem stefnt er að. Að sama skapi væri slík nálgun í takt við kröfu sem gera má til viðskipta á samkeppnismarkaði. Þvert á móti má ráða að valin sé sú nálgun að mismuna frekar notendum eftir því hvaða orkusala þeir eiga í viðskiptum við og er það verulega ámælisvert að mati SI.“

Samtök iðnaðarins segja frumvarpið það miklum annmörk háð að það verði að afturkalla það. Þær leiðir sem þar séu boðaðar séu síst til þess fallnar að leysa þá alvarlegu stöðu sem uppi er í raforkumálum. „Þvert á móti munu þær fresta óumflýjanlegum aðgerðum sem taka á hinum raunverulega vanda.“


Tengdar fréttir

Rándýr seinagangur Orkustofnunar

Eftir tæplega 18 mánaða bið hefur Orkustofnun séð sér fært að afhenda Landsvirkjun virkjanaleyfi vegna Hvammsvirkjunar til yfirlestrar. Fram hefur komið í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, að meðferðartími virkjanaleyfa hafi jafnan verið þrír til fjórir mánuðir.

For­stjóri Stoða gagn­rýnir stjórn­völd fyrir á­kvörðunar­fælni í orku­málum

Forstjóri eins stærsta fjárfestingafélagsins landsins gagnrýnir stjórnvöld fyrir ákvörðunarfælni í orkumálum og segir ríkisstjórnina virðast vera sátta með að fylgja þeirri stefnu að vona að „þetta reddist“ þótt ljóst sé að ekki er til næg orka í kerfinu. Hann vonar að jákvæð viðbrögð stjórnmálamanna við sölunni á Kerecis marki „vitundarvakningu“ um mikilvægi erlendrar fjárfestingar sem sé forsenda þess að ná jafnvægi í gjaldeyrismálum þjóðarinnar meðan lífeyrissjóðirnir horfa í auknum mæli út fyrir landsteinana í sínum fjárfestingum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×