Klinkið

Rándýr seinagangur Orkustofnunar

Ritstjórn Innherja skrifar
Halla Hrund Logadóttir er orkumálastjóri.
Halla Hrund Logadóttir er orkumálastjóri. Vísir/Vilhelm

Eftir tæplega 18 mánaða bið hefur Orkustofnun séð sér fært að afhenda Landsvirkjun virkjanaleyfi vegna Hvammsvirkjunar til yfirlestrar. Fram hefur komið í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, að meðferðartími virkjanaleyfa hafi jafnan verið þrír til fjórir mánuðir.

Hörður bætti því við að biðtími eftir virkjanaleyfinu hefði verið óeðlilega langur. Færa má rök fyrir því að biðin eftir leyfinu sé ekki aðeins óheppileg og óeðlilega löng, heldur líka rándýr.  

Alþjóðlegt hrávöruverð hefur hækkað hratt á undanförnu ári, einkum og sér í lagi vegna innrásar Rússa í Úkraínu og þeirrar orkukreppu sem hefur fylgt í kjölfarið. Steinsteypa og stál, sem eru mikilvægustu og veigamestu hráefnin við byggingu vatnsaflsvirkjana, hafa hækkað mikið í verði á undanförnum 12 mánuðum. Orkukreppan í Evrópu hefur hækkað aðfangakostnað allrar framleiðslu, hvort sem þar er litið til byggingahráefnis eða tækjabúnaðar.

Það er því alls ekki ókeypis að sitja við Grensásveg og klóra sér í skegginu yfir leyfisveitingum vegna borðleggjandi virkjanakosta sem uppfylla öll skilyrði laga. Það er rándýrt.

Þessi þróun birtist meðal annars í því að byggingavísitala Hagstofunnar hefur hækkað um tæplega 11 prósent – og það bara frá síðustu áramótum. Kostnaðaráætlun Hvammsvirkjunar á þeim tíma sem sótt var um virkjanaleyfið var á bilinu 43-49 milljarðar króna (300 til 350 milljónir Bandaríkjadala). 

Miðað við hækkun á byggingavísitölu stendur það verðbil nú í 48 til 55 milljörðum króna. Þetta þýðir að byggingakostnaður vegna Hvammsvirkjunar kann að hafa aukist um fimm til sex milljarða króna hið minnsta. Mögulega vegna þess að Orkustofnun tók sér ár umfram hefðbundinn úrvinnslutíma umsókna til að skila virkjanaleyfinu í hús til Landsvirkjunar.

Hvammsvirkjun yrði sjöunda virkjunin í vatnakerfi Þjórsár- og Tungnaár. Uppsett afl er áætlað um 90 megavött. Landsvirkjun

Tapaðar tekjur

Til viðbótar við aukinn kostnað vegna verðhækkana hráefnis verður líka að taka tillit til tapaðra tekna Landsvirkjunar. Erfitt að spá fyrir um orkuverð framtíðar. Þó eru allar líkur til þess að það verði hærra en í dag. Í uppgjöri Landsvirkjunar fyrir nýliðinn ársfjórðung má lesa að meðalverð til stóriðju var rétt ríflega 42 Bandaríkjadalir fyrir megavattstundina. 

Miðað við þá forsendu að Orkustofnun hafi skilað af sér virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar ári síðar en eðlilegt hefði verið eru tapaðar tekjur Landsvirkjunar því hugsanlega um 35 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpir fimm milljarðar króna.

Sé þetta tvennt tekið saman þýðir óeðlilegur afgreiðslutími Orkustofnunar því mögulega um 10 milljörðum verri afkomu þjóðarbúsins en ella. Það er svo fyrir utan öll þau efnahagsumsvif sem skapast af stórum fjárfestingum sem vatnsaflsvirkjunum.

Það er því alls ekki ókeypis að sitja við Grensásveg og klóra sér í skegginu yfir leyfisveitingum vegna borðleggjandi virkjanakosta sem uppfylla öll skilyrði laga. Það er rándýrt.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×