Grindavík-Snæfell 96-66 | Öruggur grindvískur sigur í Smáranum

Kári Mímisson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Grindavík tók á móti Snæfelli í 11. umferð Subway deildar kvenna nú í dag. Fyrir leikinn reiknuðu flestir með öruggum sigri heimakvenna sem raunin var. Snæfell sá aldrei til sólar á meðan Grindavík sýndi afar fagmannlega frammistöðu og vann að lokum 30 stiga sigur. Lokatölur í Smáranum 96-66. 

Brostu gegnum sterkan mótbyr

Grindvíkingar byrjuðu leikinn mun betur eins og sennilega flestir áttu von á. Liðið skoraði fyrstu 9 stig leiksins og gaf heldur betur tóninn fyrir framhaldið af leiknum. Grindvíkingar héldu áfram að skora ansi þægilegar körfum á meðan Snæfell átti í miklum vandræðum á báðum helmingum vallarins. Það voru t.d. ekki liðnar sjö mínútur þegar allir bandarísku leikmenn Snæfells voru komnar með tvær villur.

Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Lið Grindavíkur hafði það ansi þægilegt og virtist eiga nóg inni á meðan lítið gekk hjá lánlausum Hólmurum. Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells, var ekki par ánægður með sínar konur og það mátti heyra í honum þegar hann skammaði þær fyrir að vera brosandi á vellinum á meðan heimakonur væru að flengja þær jafn illa og raunin var. 

Staðan í hálfleik 50 - 28 fyrir Grindavík.

Auðveld og örugg heimsigling 

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Hægt og bítandi héldu Grindvíkingar áfram að auka forskotið á meðan Snæfell átti í miklum vandræðum á flestum stöðum vallarins. Tilfinning var alltaf sú að Grindavík ætti nóg inni á meðan ekkert féll með Snæfell sem á sama tíma fór afar illa með boltann trekk í trekk.

Grindavík náði mest 37 stiga forskoti en í lokin fengu margar ungar og efnilegar stelpur að spreyta sig sem sýndu mjög flotta takta, eitthvað sem Grindvíkingar geta verið virkilega stoltir og ánægðir af. Lokatölur í Smáranum 96-66 eins og áður segir í leik sem seint verður sagður hafa verið spennutryllir.

Í liði heimakvenna var það Eve Braslis sem var atkvæðamest með 21 stig og þar á eftir kom Hulda Ólafsdóttir með 19 stig.

Hjá gestunum var það Shawnta Shaw sem var allt í öllu hjá liðinu. Hún skoraði 31 stig, tók 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Af hverju vann Grindavík?

Lið var einfaldlega miklu betra. Það má segja að þær hafi ekki trúað því í eina sekúndu að Snæfell væri að fara að vinna þær og það sama má reyndar segja um lið Snæfells.

Hverjar stóðu upp úr?

Allt Grindavíkur liðið var gott og kom sér mjög fagmannlega frá þessu verkefni. Danielle Rodriguez var frábær hjá Grindavík sem og Eve Braslis og Hulda Ólafsdóttir. Shawnta Shaw átti auðvitað fínan dag fyrir Snæfell en því miður fyrir hana þá getur hún ekki sigrað þetta lið Grindavíkur ein síns liðs.

Hvað gekk illa?

Það var svo mikið vonleysi yfir leik Snæfells frá fyrstu mínútu. Liðið virtist ekki hafa neina trú á verkefninu því það gjörsamlega skein af leikmönnum inn á vellinum. Það var alveg sama hvað Baldur, þjálfari þeirra reyndi að öskra sínar konur í gang þetta var bara ekki þeirra leikur.

Hvað gerist næst?

Það er skammt stórra högga á milli hjá báðum liðum sem leika næst á þriðjudaginn. Grindavík fer á Hlíðarenda og mætir þar Íslandsmeisturum Vals á meðan Snæfell fær Þór Akureyri í heimsókn. Báðir leikir hefjast klukkan 19:15.

„Ef allt væri eðlilegt í Grindavík þá værum við á toppnum“

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur var að vonum sáttur með sigurinn þegar hann mætti í viðtal eftir leik.Vísir/Vilhelm

„Ég er mjög sáttur. Við lögðum þetta upp með að leyfa Shawntu að fara í skot. Hún skoraði vissulega en aðrar gerðu það ekki og voru í basli. Þetta gekk því alveg upp fyrir okkur.“

Undir lok leiksins var lið Grindavíkur sem var inn á vellinum ansi ungt. Þessar ungu og efnilegu stelpur sem komu inn á stóðu sig vel en hversu sáttur er Þorleifur með framlagið frá þeim í dag?

„Þær voru frábærar. Gaman að geta gefið þeim tækifærið og leyfa þeim að fá séns. Þær voru mjög áræðnar og flottar.“

Spurður út það hversu sáttur hann er með stöðuna á liðinu á þessum tímapunkti í deildinni segist Þorleifur hana vera góða miða við allt sem á undan hefur gengið. Hann telur þó liðið geti bætt sig.

„Ef allt væri eðlilegt í Grindavík þá værum við á toppnum en miða við hver staðan er þar þá er ég alveg sáttur með stöðuna á liðinu núna. Við eigum fullt inni tel ég og ég hlakka bara til að reyna að ná því út úr liðinu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira