Handbolti

Mættu mót­herjunum á göngunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Landsliðið mætt á sína fyrstu æfingu í Stafangri.
Landsliðið mætt á sína fyrstu æfingu í Stafangri. HSÍ/Kjartan Vídó

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta lenti í Stafangri í Noregi í dag eftir stutt 45 mínútna flug frá höfuðborginni Osló. Liðið æfði þar saman í Íþróttahöll Stafangurs, líkt og hún er kölluð, síðdegis – sem er þó ekki keppnishöllin hjá liðinu á HM.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Stafangri

Heimsmeistaramótið hefst á morgun og fara tveir leikir fram hér í borg er keppni í C-riðli hefst. Suður-Kórea mætir Austurríki og búast má við húsfylli í DNB-höllinni þegar Noregur, undir styrkri stjórn Þóris Hergeirssonar, mætir Grænlandi í Norðurlandaslag.

Ísland hefur ekki leik fyrr en á fimmtudag og mætir þar liði Slóveníu. Slóvenska liðið æfði milli fjögur og fimm að staðartíma í Íþróttahöllinni í dag áður en íslenska liðið tók við á slaginu fimm. Áttu liðin því góða skiptingu í íþróttahúsinu seinni partinn.

Það var létt yfir hópnum og afslöppuð stemning er liðið ferðaðist ásamt fréttamönnum frá Osló yfir til Stafangurs í dag. Allir leikmenn eru klárir í slaginn.

Þær sem undirritaður ræddi við í dag eru sammála um að æfingamótið í Lillehammer síðustu helgi hafi reynst dýrmæt reynsla fyrir það sem koma skal. Úrslitin þar hafi litlu máli skipt. Leikmenn eru búnir að hrista úr sér mesta skrekkinn fyrir verkefnið stóra sem fram undan er.

Fyrsta heimsmeistaramótið í tólf ár fram undan og spennan eykst með hverri mínútunni sem líður að stóru stundinni þegar Ísland hefur leik gegn Slóveníu á fimmtudaginn kemur.

Hitað upp á æfingu dagsins.HSÍ/Kjartan Vídó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×