Körfubolti

Þóra Kristín getur ekki verið sú Þóra Kristín sem hana langar til að vera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Kristín Jónsdóttir og Keira Breeanne Robinson vilja báðar vera mikið með boltann og það hefur bitnað á Þóru í vetur.
Þóra Kristín Jónsdóttir og Keira Breeanne Robinson vilja báðar vera mikið með boltann og það hefur bitnað á Þóru í vetur. S2 Sport

Haukakonur enduðu þriggja leikja taphrinu sína með sigri á Fjölni í síðustu umferð Subway deildar kvenna í körfubolta. Haukaliðið hefur ollið miklum vonbrigðum í vetur og er ekki inni í efri hlutanum eins og staðan er núna.

Sigurinn á móti Fjölni var liðinu lífsnauðsynlegur og þar munaði miklu um góða frammistöðu landsliðskvennanna Tinnu Guðrúnar Alexandersdóttur og Þóru Kristínar Jónsdóttur. Þær voru saman með 48 stig og 10 stoðsendingar í þessum leik.

Erlendu leikmenn Haukanna voru meðal annars til umræðu í síðasta Körfuboltakvöldi en Haukarnir léku án Keira Robinson í Fjölnisleiknum. Hún er að glíma við meiðsli.

„Við erum búin að ræða rosalega mikið Þóru Kristínu og þetta Haukalið í vetur. Ég hef ekki legið á mínum skoðunum en mér finnst Þóra Kristín og Keira ekki passa nógu vel saman,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

Klippa: Körfuboltakvöld: Þóra Kristín og Keira

„Keira, erlendi leikmaðurinn hjá Haukaliðinu, er frábær leikmaður. Hún er örugglega einn af bestu erlendu leikmönnunum í deildinni. Við tölum svo oft um að að hún tekur ekki neitt frá neinum. Mér finnst Keira taka frá Þóru Kristínu,“ sagði Pálína.

„Af hverju? Ég held að það sé af því að Þóra Kristín og hún séu svipaðir leikmenn. Þóra Kristín vill vera mikið með boltann og vill stýra spilinu. Ég held að Þóru Kristínu líði eins og hún geti ekki verið sú Þóra Kristín sem hana langar til að vera þegar Keira er inn á. Hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað veit ég ekki,“ sagði Pálína.

„Mér finnst Haukunum vanta ógn inn í teig og ég held að Haukarnir eigi að leita að þannig erlendum leikmanni. Þær eru með Þóru og þær eru með Tinnu Guðrúnu sem báðar geta tekið upp boltann,“ sagði Pálína og nefnir Evu Margréti Kristjánsdóttur sem Haukarnir misstu frá sér í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×