Körfubolti

Jose Medina fljótur að finna sér nýtt Subway-deildar lið á Suður­landinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Medina í leik með Hamarsliðinu á móti Val á dögunum.
Jose Medina í leik með Hamarsliðinu á móti Val á dögunum. Vísir/Vilhelm

Spænski körfuboltamaðurinn Jose Medina fer ekki langt eftir að Hamarsmenn létu hann fara á dögunum. Þórsarar sögðu frá því að þeir höfðu samið við bakvörðinn.

Medina færir sig því úr Hveragerði yfir í Þorlákshöfnina og spilar áfram í Subway deild karla.

Medina hefur spilað á Íslandi undanfarin þrjú ár en hann hafði hjálpað bæði Haukum og Hamri að komast upp í efstu deild.

Í vetur fékk hann sitt fyrsta tækifæri í Subway-deildinni en Hamarsmenn létu hann fara eftir aðeins sex leiki.

„Jose er 30 ára leikstjórnandi með mikla leikreynslu frá Spáni, Frakklandi og Þýskalandi. Jose kom nágrönnum okkar í Hamar upp í deild þeirra bestu í fyrra og gerði það sama með Haukum árið áður. Það er mikil ánægja að fá Jose Medina inn í Þórsfjölskylduna. Við hlökkum við til að sjá hann í grænu og bjóðum hann hjartanlega velkominn í Hamingjuna!,“ segir í frétt á miðlum Þórsara.

Medina var með 12 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali með Hamarsliðinu í vetur en hann hitti úr 33 prósent þriggja stiga skota sinna.

Þetta er annað árið í röð sem Þórsarar fá til sín leikmann sem eitt af botnliðum deildarinnar hefur látið fara. Það sama gerðist í fyrra þegar KR-ingar ráku Jordan Semple sem kom svo til Þorlákshafnar í framhaldinu.

Það heppnaðist mjög vel enda er Jordan Semple enn að spila með Þórsliðinu en hann er með 16,6 stig, 10,8 fráköst og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×