Skoðun

Á­byrgð okkar allra gagn­vart Grind­víkingum

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

Fyrir þrjátíu árum gekk ég í Björgunarsveit Hafnarfjarðar af því að ég fann mig knúinn til þess að gefa til baka til samfélagsins. Af sömu ástæðu hef ég boðið fram krafta mína, reynslu og þekkingu undanfarna tíu daga í Samhæfingarstöð Almannavarna. Þetta nefni ég ekki til upphefja sjálfan mig heldur sem dæmi um þá samfélagslegu ábyrgð sem ég og hundruð annara sjálfboðaliða frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Rauða Kross Íslands hafa fundið til nú þegar íbúar Grindavíkur ganga í gegnum skelfilegar náttúruhamfarir.

Þúsundir annara Íslendinga og fjölmörg fyrirtæki hafa einnig fundið til þessarar samfélagslegu ábyrgðar og boðið fram húsnæði, föt, þjónustu og vörur til þess að létta undir íbúum Grindavíkur á þessum erfiðu tímum. Það að sýna samfélagslega ábyrgð er ekki skylda, hvorki fyrir einstaklinga né fyrirtæki, heldur er það drifið áfram af samkennd með þeim sem eru að ganga í gegnum erfiðleika.

Fyrir rúmum áratug vann ég fyrir eitt stærsta fyrirtæki heims í deild sem einblíndi á það að aðstoða lönd og hjálparstofnanir þegar náttúruhamfarir dundu yfir. Þar lærði ég að það búa nokkrar aðstæður að baki þess að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð á slíkum tímum. Ein slíkra ástæðna eru beinir viðskiptalegir hagsmunir. Þegar viðskiptavinir lenda í ófyrirsjáanlegum áföllum þá er það til góðs fyrir fyrirtækið til lengri tíma að aðstoða viðskiptavini við að komast sem fyrst út úr áfallinu og komast aftur af stað.

Önnur ástæða er ímynd fyrirtækisins og viðskiptavild. Það er tekið eftir því þegar fyrirtæki sýna samfélagslega ábyrgð á erfiðum tímum og sannleikurinn er sá að það getur haft mjög jákvæð áhrif á framtíð fyrirtækisins. Viðskiptavinir kaupa nefnilega frekar þjónustu og vörur af fyrirtækjum sem að standa með fólki á erfiðum tímum.

Þriðja ástæðan er sú að það hefur sýnt sig að starfsmannavelta hjá fyrirtækjum sem sýna samfélagslega ábyrgð er lægri. Starfsfólk vill vinna hjá fyrirtækjum sem sýna samkennd með fólki í neyð. Fyrirtækjum sem átta sig á því að skammtíma neikvæð áhrif á gróða geta leitt til jákvæðra áhrifa til lengri tíma.

Það fylgja því ýmis samlegðaráhrif fyrir fyrirtæki að axla samfélagslega ábyrgð. Við getum sem samfélag þó ekki stólað einungis á það að fyrirtæki og einstaklingar hlaupi undir bagga á þessum erfiðum tímum. Sú ábyrgð liggur fyrst og fremst hjá ríkisstjórninni. Það er ljóst að Grindvíkingar muni ekki geta snúið til baka í húsnæðið sitt í bráð og því þarf ríkisstjórnin að tryggja öllum Grindvíkingum húsnæði. Þegar er búið að úthluta um hundrað fjölskyldum húsnæði en að minnsta kosti sex hundruð fjölskyldur bíða enn. Auk þessa þurfa stjórnvöld að tryggja afkomu fólks tímabundið sem og húsnæðisstuðning vegna komandi leigugreiðslna og afborgana af húsnæði í Grindavík. Ein leið til þess væri að þrýsta á fjármálafyrirtæki að frysta lán og fella niður vaxtagreiðslur, og verðbætur á vexti, á meðan á þessu óvissuástandi stendur.

Nú reynir virkilega á það að ríkisstjórnin og íslensk fyrirtæki taki höndum saman og sýni í verki samfélagslega ábyrgð gagnvart Grindvíkingum.

Höfundur er þingmaður Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×