Körfubolti

Segir stærsta vanda­málið í dóm­gæslu að konur sinna ekki sínum hluta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Óskarsson hefur verið viðloðinn dómgæslu á Íslandi í næstum því fjóra áratugi.
Kristinn Óskarsson hefur verið viðloðinn dómgæslu á Íslandi í næstum því fjóra áratugi. Vísir/Bára

Einn reyndasti og besti körfuboltadómari Íslands hefur sterkar skoðanir á þátttöku kvenna í dómgæslu og segir það eitt af vandamálum dómarastéttarinnar hversu illa gengur að fá konur til að dæma.

Kristinn tjáir sig um frétt Vísis í gær um það þegar enginn dómari mætti á leik í Faxaflóamóti 3. flokks kvenna í knattspyrnu. Jafnaldrar stelpnanna voru fengnar til að dæma og það endaði síðan með því að afi einnar stelpunnar úr öðru liðinu dæmdi seinni hálfleikinn.

Kristinn hefur dæmt körfubolta í næstum því fjóra áratugi en hann hóf 37. tímabilið sitt í íslenska körfuboltanum á dögunum. Hann hefur líka starfað lengi við það að búa til nýja dómara fyrir hreyfinguna, bæði með námskeiðum en einnig með að aðstoða unga dómara.

„Stærsta vandamál í dómgæslu í dag er að konur sinna ekki sínum hluta verkefnisins. Sem dæmi þá þurfa konur uþb 42% af allri dómgæslu hjá KKÍ en sinna sjálfar innan við 2%,“ skrifar Kristinn á Fésbókarsíðu sína.

„Ef reglan væri að karlar dæmdu hjá körlum og konur dæmdu hjá konum þá þyrftum við að leggja niður kvennastarfið að mestu,“ skrifar Kristinn.

„Þessi kynjahalli setur mikinn þrýsting á kerfið og eru körfuknattleiksdómarar flestir að dæma allt of mikið til að halda starfinu gangandi. Ástandið er örugglega sambærilegt í handbolta og fótbolta,“ skrifar Kristinn eins og sjá má hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.