Körfubolti

Curry segir ekkert mál að skilja hvernig nýi deildarbikar NBA virkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steph Curry er leikmaður Golden State Warriors.
Steph Curry er leikmaður Golden State Warriors. Vísir/Getty

Leikir NBA körfuboltaliðanna gilda tvöfalt á þriðjudögum og föstudögum í þessum nóvembermánuði.

NBA deildin í körfubolta bryddar upp á nýjung á þessu tímabili en þetta er fyrsta tímabilið með deildarbikarnum, aukakeppni innan tímabilsins sem endar með lokaúrslitum í Las Vegas. Keppnin heitir „NBA In-Season Tournament“ á ensku.

Liðunum í deildinni er skipt niður í sex riðla, þrjá í hvorri deild, þar sem allir mætast einu sinni. Liðin spila tvo heimaleiki og tvo útileiki. Efsta lið hvers riðils kemst síðan áfram í átta liða úrslitin ásamt tveimur liðum sem eru með besta árangurinn í öðru sæti.

Austurdeildin mun skila fjórum liðum áfram, sigurvegurum riðlanna þriggja sem og einu liði með besta árangurinn í öðru sæti. Vesturdeildin mun sömuleiðis skila áfram fjórum liðum, sigurvegaranum í hverjum riðli og einu liði með besta árangurinn í öðru sæti.

Síðan taka við átta liða úrslit þar sem sigurvegarinn tryggir sér sæti á úrslitahelginni sem fer fram í Las Vegas. Þar er áfram skipt eftir deildum. Það verða því tvö lið úr Austrinu og tvö lið úr Vestrinu sem komast í úrslitin.

Allir leikir í riðlakeppninni fara fram á þriðjudögum og föstudögum frá 3. til 28. nóvember. Þessir leikir gilda í raun tvöfalt, því þeir telja bæði í riðlakeppni deildarbikarsins en eins í heildarárangri liðsins á tímabilinu.

Leikir í átta liða úrslitunum fara fram 4. og 5. desember og úrslitahelgin verður síðan 7. til 9. desember í spilavítaborginni miklu.

Einhverjir hafa verið að kvarta yfir því að þetta sé svo flókið en Stephen Curry, leikmaður Golden State Warriors, segir þetta sé allt mjög einfalt ef fólk gefi sér bara smá tíma til að kynna sér málið betur.

Hér fyrir neðan má sjá Curry fara yfir það hvernig deildarbikar NBA virkar á einfaldan Curry-hátt. Þetta er nefnilega ekkert mál að skilja.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×