Skoðun

Ráð­herra vill skera niður laun kvenna sem halda hjólum sam­fé­lagsins gangandi

Þórarinn Eyfjörð skrifar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í Silfrinu í gærkvöld að ofbeldi gegn konum líktist farsótt sem taka þurfi á líkt og öðrum farsóttum. Þessi ummæli Ingibjargar Sólrúnar eru rétt og þessa farsótt verður að uppræta á íslenskum vinnumarkaði. Það kallar á endurmat á virði kvennastétta og viðhorfsbreytingu stjórnvalda sem með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi halda stórum kvennastéttum í helgreipum lágra launa.

Konum haldið niðri í launum og ónýt stuðningskerfi

Kynbundinn launamunur er ríkjandi ástand á íslenskum vinnumarkaði og stórar kvennastéttir búa við algert vanmat á virði starfa sinna. Í könnun Vörðu sem stofnunin gerði fyrir Sameyki má sjá að sá hópur opinberra starfsmanna sem verst er settur í efnalegu tilliti er að stærstum hluta konur sem vinna við heilbrigðisþjónustu. Þar hefur ríkið markað sér þá stefnu að halda launum starfsmanna niðri með öllum tiltækum ráðum. Ef litið er til þeirra sem búa við allra slökustu kjörin þá þarf ekki að leita lengi til að sjá að stór hluti ungra einstæðra mæðra og börn þeirra lifa við fátæktarmörk. Ofan á það að búa við verstu launasetninguna þá bætist hér við stefna stjórnvalda um að skera niður við trog stuðning og styrkjakerfi, sem ungt fólk og einstæðir foreldrar þurfa að geta treyst á. Í fjárlagafrumvarpi núverandi stjórnvalda fyrir árið 2024 er niðurskurðurinn sláandi. Þar kemur fram milljarða niðurskurður í frestun framkvæmda og um 9,6 milljarða króna niðurskurður í rekstrarútgjöldum sem á fyrst og fremst að nást með uppsögnum starfsfólks sem aðallega eru konur í framlínustörfum. Fremur lítið er gert úr áhrifum þessa niðurskurðar og látið í veðri vaka að verið sé að verja framlínuþjónustuna. Það er ekki rétt því almennt verða fjárveitingar til launa lækkaðar um 2,5 prósent og um 0,25 prósent til heilbrigðis- og öldrunarstofnana. Það á því að auka enn frekar vinnuálag kvenna sem sinna heilbrigðis- og umönnunarþjónustu, þrátt fyrir þá undirmönnun sem er og verið hefur viðvarandi vandamál á mörgum þessara stofnana.

Konur og ungt barnafólk fær skellinn

Á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis sem haldinn var í gær sagði undirritaður að yfirlýsingar Þórdísar Kolbrúnar R. Gísladóttur fjármála- og efnahagsráðherra um næstu kjarasamninga væru eins og hvert annað óráðshjal þegar hún sagði að ekki verði um neinar launahækkanir að ræða í næstu kjarasamningum. Slíkt ábyrgðarlaust tal eru kaldar kveðjur inn í verkalýðshreyfinguna fyrir komandi kjarasamninga. Hún er líka með þessu að gera lítið úr konum sem halda hjólum samfélagsins gangandi með störfum sínum í grunnþjónustunni, ummönnunarstörfum, menntastörfum og heilbrigðisstörfum. Samkvæmt könnun Vörðu á um fjórðungur (25%) þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman og ríflega helmingur (53%) geti ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Ríflega einn af hverjum tíu (10%) hefur ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag og nánast sama hlutfall (11%) hefur ekki efni á bíl. Meira en fjórðungur hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu sinni (27%). Tæpur fimmtungur (18%) hefur þurft að fá aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi peninga- eða matargjafa á síðastliðnu ári.

Að rækta ótta

Þá talaði fjármála- og efnahagsráðherra í Silfrinu í gærkvöldi fyrir viðhorfum nýfrjálshyggjunnar. Hún ætlar að selja Íslandsbanka og skeytir engu um það að þorri landsmanna er því mótfallinn. Allir landsmenn hafa orðið vitni að spillingunni í kringum söluna á bankanum og Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra einmitt vegna þess. Þá staðhæfði nýr fjármálaráðherra að ástæða hárrar verðbólgu væri vegna þess að laun fólks séu alltof há: „við höfum hækkað laun umfram það sem er til skiptanna“. Það er vægast sagt undarlegt hjá ráðherra efnahagsmála að halda slíkri firru fram, en það er gert til að vekja upp ótta hjá þeim sem hugsanlega gætu krafist hærri launa í næstu kjarasamningum. Og hvaða hópur er það? Það eru konur sem halda hjólum samfélagsins gangandi og tryggja að gangverk þess fái þann stuðning sem þarf til að það haldist gangandi. En það er ekki hægt að kenna láglaunastéttunum um verðbólguna eins og fjármálaráðherra heldur fram. Hún segir að laun hafi of oft í of mörg ár hækkað umfram það sem er til skiptanna. Hún sagði hins vegar ekkert um það hvernig ríkisstjórnin hefur fjársvelt samfélagið en aukið hlut hinna ofurríku og fjármagnseigenda með því að færa þeim á silfurfati eigur þjóðarinnar, eignir og auðlindir og hlíft breiðu bökunum við að leggja sitt fram til samfélagsins. Auðstéttin greiðir fjármagnstekjuskatt, 22%, á meðan launafólk greiðir eftir þrepum upp í rúm 46% prósent í skatt í ríkissjóð. Raunverulega ógnin við stöðugleika í samfélaginu er stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem stuðlar að því að minna sé til skiptanna og hún grípur ekki til neinna þeirra aðgerða sem mögulega gæti kallað fram stöðugleika og jafnræði í samfélaginu.

Það er augljóst að það eru konur sem að stærstum hluta eru á lægstu laununum í samfélagi okkar og taka mesta skellinn vegna verðbólgunnar. Ekki fjármagnseigendur og þau fyrirtæki sem auðgast á verðbólgunni. Kaupmáttarrýrnunin er mest hjá þeim hópum sem sinna grunnþjónustunni og það eru konur sem sinna þeim störfum sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gísladóttir vill halda niðri.

Kallarðu þetta réttlæti!

Höfundur er formaður Sameykis og 1. varaformaður BSRB.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×