Körfubolti

Tapsárar New York konur fengu 277 þúsund krónu sekt hver

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liberty náðu ekki að færa New York borg meistaratitil. Hér eru þær Courtney Vandersloot, Jonquel Jones, Betnijah Laney, Breanna Stewart og Sabrina Ionescu. Þrjár af þeim fengu stóra sekt.
Leikmenn Liberty náðu ekki að færa New York borg meistaratitil. Hér eru þær Courtney Vandersloot, Jonquel Jones, Betnijah Laney, Breanna Stewart og Sabrina Ionescu. Þrjár af þeim fengu stóra sekt. Getty/Sarah Stier

New York Liberty tapaði í lokaúrslitunum um WNBA meistaratitilinn í körfubolta á dögunum og til að strá salt í sárin þá þurfa þrír af leikmönnum liðsins nú að greiða háa sekt.

Liberty varð að sætta sig við eins stigs tap, 70-69, í lokaleiknum og þar sem vann Las Vegas Aces einvígið 3-1.

Sabrina Ionescu, Jonquel Jones og Betnijah Laney eru allar í stórum hlutverkum hjá New York liðinu en þær brutu reglur deildarinnar eftir leik.

Fjölmiðlamenn vildu ræða málin við þessa þrjá leikmenn en þær höfnuðu öllum viðtölum.

Allt liðið fékk sekt upp á 25 þúsund dollara vegna þess að leikmenn liðsins neituðu viðtölum en það gerir um 3,4 milljónir króna.

Hver og ein af þessum þremur fékk líka tvö þúsund dollara sekt og þurftu því að greiða 277 þúsund íslenskar krónur úr eigin vasa.

The Professional Basketball Writers Association, Samtök fréttamanna í körfubolta, höfðu gefið frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun leikmanna sem þau töldu að væru að vinna gegn því að skrásetja sem best stóra stund í sögu deildarinnar.

Hvað varðar frammistöðuna hjá þessum tapsáru leikmönnum í leiknum þá var Betnijah Laney með 15 stig og 4 stoðsendingar, Sabrina Ionescu skoraði 13 stig og Jonquel Jones var með 6 stig og 11 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×