Viðskipti innlent

Yngvi hættur hjá Sýn

Árni Sæberg skrifar
Yngvi Halldórsson, fyrrverandi forstjóri Sýnar.
Yngvi Halldórsson, fyrrverandi forstjóri Sýnar. Sýn

Stjórn Sýnar og Yngvi Halldórsson, forstjóri, hafa í dag gert samkomulag um starfslok forstjóra. Viðræður um starfslokin áttu sér stað að frumkvæði forstjóra. Hann hefur látið af störfum.

Þetta segir í tilkynningu Sýnar til Kauphallar nú í morgunsárið. Þar segir að Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs, taki tímabundið við starfi forstjóra þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn. Ráðningarferli sé hafið.

„Við þökkum Yngva fyrir hans framlag til félagsins og óskum honum velfarnaðar. Um leið erum við lánsöm að geta leitað til Páls Ásgrímssonar um að leiða félagið tímabundið. Hann hefur fullt traust stjórnar til að leiða félagið þar til nýr fastráðinn forstjóri tekur til starfa,“ er haft eftir Jóni Skaftasyni, stjórnarformanni Sýnar.

„Sýn er frábært fyrirtæki sem er fullt af afburða fagfólki sem leggur ástríðu í störf sín á hverjum degi. Ákvörðun mín að hætta störfum hjá félaginu er rétt ákvörðun fyrir mig á þessum tímapunkti. Ég óska Sýn alls hins besta og þakka kærlega fyrir samstarfið síðustu fjögur ár,“ er haft eftir Yngva.

Miklar breytingar hjá félaginu

Yngvi tók við stöðu forstjóra Sýnar í september í fyrra eftir að Heiðar Guðjónsson seldi allan hlut sinn í félaginu og hætti sem forstjóri. Þar áður hafði Yngvi gengt stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs í þrjú ár.

Síðan Heiðar seldi fjárfestahópnum Gavia invest, sem áðurnefndur Jón Skaftason veitir forsvar, hafa ýmsar breytingar orðið hjá Sýn. 

Tveir hluthafafundir hafa verið haldnir og tvær stjórnir kjörnar. Þá lét Þórhallur Gunnarsson af störfum sem framkvæmdastjóri fjölmiðla Sýnar í júní síðastliðnum og í ágúst óskaði Alda Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Sýn, eftir því að láta af störfum. Hún tók við sama starfi hjá Innnes í kjölfarið.

Vísir er í eigu Sýnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×